Í augnsýn

Í „Málspjalli“ var í gær vakin athygli á fyrirsögninni „Segir samning Kvikmyndaskólans við ráðuneytið í augnsýn“ á vef Ríkisútvarpsins og spurt „Augnsýn eða augsýn“? Spurningin er skiljanleg – vissulega er augsýn, án n, venjulega orðmyndin en myndina augnsýn er ekki að finna í orðabókum. Hún kemur þó einnig fyrir inni í fréttinni sem sýnir að tæpast er um innsláttarvillu að ræða. Myndin Augnsýn er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls sem nafn á gleraugnaverslun en nafnið kom ýmsum ókunnuglega fyrir sjónir í byrjun eins og sjá má á leiðréttingu í Morgunblaðinu 1981: „Einn stafur féll niður í nafni nýrrar gleraugnaverzlunar í Hafnarfirði, sem skýrt var frá blaðinu í gær. Verzlunin heitir Augnsýn en ekki Augsýn.“

En myndin augnsýn í áðurnefndri frétt er þó fjarri því að vera einsdæmi. Um tvö hundruð dæmi eru um hana á tímarit.is, það elsta í Þjóðviljanum 1947: „Þegar Alec var horfinn úr augnsýn, fór dálítill kuldahrollur um Sally.“ Langflest dæmanna eru frá því eftir 1990 og virðist ekki ólíklegt að verslunarheitið Augnsýn sem áður var nefnt og tekið var upp 1981 hafi ýtt undir notkun þessarar orðmyndar – fólk heyrir hana og sér og hefur enga ástæðu til að ætla annað en hana megi nota í samböndum eins og í aug(n)sýn og úr aug(n)sýn. Hún er gagnsæ, ekkert síður en augsýn, og samræmist íslenskum orðmyndunarreglum fullkomlega. Samsetningar með augn- sem fyrri lið eru reyndar miklu fleiri en þær sem hafa aug- að fyrri lið og einhverjar tvímyndir eru til.

Í Risamálheildinni eru um fimm hundruð dæmi um augnsýn, þar af nærri helmingur úr formlegri textum en samfélagsmiðlum. Fjöldi dæma um augnsýn á samfélagsmiðlum er rúmur fjórðungur af fjölda dæma um augsýn. Vegna þess að orðið er gagnsætt, rétt myndað, a.m.k. hátt í áttatíu ára gamalt og greinilega komið í verulega notkun eru hvorki forsendur né ástæða til að hafna því eða telja það rangt mál. Það er ljóst að margt yngra fólk hefur alist upp við þetta orð og eðlilegt að það noti samböndin í augnsýn og úr augnsýn. Við hin þurfum ekkert að amast við því þótt við höldum væntanlega áfram að segja í augsýn og úr augsýn. Það er líka í himnalagi – við þurfum ekkert öll að tala eins og málið þolir alveg tilbrigði, svo framarlega sem þau raska ekki kerfinu.