Oft og/á tíðum
Í „Málspjalli“ var nýlega spurt hvort fólk legði sömu merkingu í orðasamböndin oft á tíðum og oft og tíðum. Bæði samböndin eru algeng en ég svaraði því til að oft og tíðum væri eldra, en merkingin sú sama. Í sambandinu oft og tíðum er tíðum atviksorð, í raun upphaflega þágufall fleirtölu annaðhvort af nafnorðinu tíð eða lýsingarorðinu tíður. Eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið er slík myndun atviksorða algeng, svo sem bráðum af lýsingarorðinu bráður, stundum af nafnorðinu stund o.fl. Jón bendir á að oft og tíðum er mun eldra en oft á tíðum og kemur fyrir þegar í fornu máli en síðarnefnda afbrigðið hefur tíðkast allt frá nítjándu öld. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Norðlingi 1876: „lifraraflinn eintómur verður opt á tíðum ónógur til að borga kostnaðinn.“
Í sambandinu oft á tíðum er á forsetning og tíðum skilið sem þágufall fleirtölu af nafnorðinu tíð – sem gæti líka verið uppruni tíðum í oft og tíðum þótt þar sé tíðum hugsanlega af lýsingarorði eins og áður segir. Munurinn er sá að í oft á tíðum heldur tíðum fallorðseðli sínu og setningarstöðu en hefur setningarstöðu atviksorðs í oft og tíðum. Það er varla vafi á því að yngra sambandið oft á tíðum er orðið til úr oft og tíðum og sú þróun er í sjálfu sér skiljanleg. Tengingin og er áherslulaus í oft og tíðum og framburðarmunur og og á við slíkar aðstæður er ekki mikill – hvort tveggja einhvers konar óráðið sérhljóð. Við það bætist að málnotendur kunna að hafa upplifað oft og tíðum sem óþarfa og óeðlilega tvítekningu, þar sem merking orðanna oft og tíðum er sú sama.
Hvað sem því líður er ljóst að bæði samböndin hafa lengi verið mjög algeng og hljóta vitanlega bæði að teljast „rétt mál“. Síðan upp úr miðri tuttugustu öld hefur oft á tíðum verið algengara og dæmin um það á tímarit.is eru hátt í helmingi fleiri en dæmi um oft og tíðum. Á seinustu árum sækir fyrrnefnda sambandið mjög á – í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar er það meira en tuttugu sinnum algengara en oft og tíðum sem virðist því vera að hverfa úr óformlegu málsniði. Það rímar við að sum þeirra sem tóku þátt í umræðum í „Málspjalli“, líklega fremur yngra fólk, sögðust aldrei hafa heyrt það, en önnur, líklega fremur úr hópi þeirra eldri, sögðust aftur á móti alltaf nota oft og tíðum og fannst jafnvel oft á tíðum vera „bara bull“. Þarna er því líklega kynslóðamunur.
Það kom mér hins vegar á óvart að í umræðunum kom fram að sumum fannst vera merkingarmunur á samböndunum, þannig að oft og tíðum merkti 'oft, margsinnis' en oft á tíðum merkti 'áður fyrr'. Mjög oft gætu báðar merkingar vissulega átt við. Í setningu eins og „Lífsbaráttan var oft á tíðum hörð“ í Morgunblaðinu 2000 er vel hægt – og ekkert óeðlilegt – að skilja oft á tíðum sem ‚áður fyrr‘. Svipaðar setningar eru algengar og slík tvíræðni er einmitt forsenda endurtúlkunar á merkingu. Það er líka þekkt tilhneiging meðal málnotenda að finna tilbrigðum mismunandi hlutverk – fólki finnst eðlilegt að gera ráð fyrir því að einhver ástæða sé fyrir því að tvö afbrigði eru til, og fyrst til er bæði oft og tíðum og oft á tíðum er farið að gefa þeim mismunandi merkingu.
Það getur ýtt undir þennan skilning að til eru ýmis sambönd þar sem á tíðum vísar til tíma – bæði fyrri tíðar, eins og fyrr á tíðum og áður á tíðum, en einnig til samtímans eins og nú á tíðum. Líkindi við þessi sambönd gætu leitt til þess að fólk tengdi tíðum í oft á tíðum fremur við tíma en við tíðni. Ég veit ekki hversu algengur þessi skilningur er og það er ógerningur að kanna það í textum vegna þess að oft er ekki hægt að ráða merkingu fyrir víst af samhenginu. En svo má spyrja hvort þessi merkingarbreyting – ef hún er að verða – sé í lagi, og því verður fólk að svara fyrir sig. Svipaðar breytingar eru algengar og valda sjaldnast vandræðum, en vissulega getur misskilningur – þó varla alvarlegur í þessu tilviki – hlotist af því ef fólk skilur tiltekið orðasamband á mismunandi hátt.