Yfirsjón en ekki einbeittur brotavilji
Ég hef fengið viðbrögð frá starfsfólki Arion banka vegna athugasemda við enskunotkun í kynningu á markaðsherferð bankans – „Arion sport 2025 spring summer“. Bankanum þykir þetta leitt – þetta var „yfirsjón“ að sögn en „slapp í gegnum nálaraugað“ og „gerist ekki aftur“. Ég skal alveg trúa því að um mistök sé að ræða en ekki „einbeittan brotavilja“ – en það er samt ekki síður áhyggjuefni. Það er nefnilega ljóst að fjöldi fólks kom að þessu kynningarefni án þess að nokkur kveikti á því að eitthvað væri undarlegt eða athugavert við að kjörorðið (eða hvað á að kalla það) væri á ensku. Fulltrúi bankans sagðist „viss um að mörgum finnist kjánalegt að hafa þetta á ensku (en velti því ekkert fyrir sér fyrr en á það er bent)“.
En þetta sýnir í hnotskurn hvað við erum orðin ónæm fyrir enskunni í kringum okkur. Auðvitað á ekki að þurfa að benda á þetta – auðvitað ætti fólk að kippast við þegar það sér að auglýsing sem beint er til Íslendinga er á ensku en ekki íslensku. Reyndar verður ekki betur séð en umrætt kjörorð brjóti beinlínis gegn þriðju málsgrein sjöttu greinar laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, þar sem segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þetta dæmi sýnir að mikilvægt er að vera á verði og gera athugasemdir við óþarfa og ástæðulausa enskunotkun. Ég treysti því að bankinn geri alvöru úr vangaveltum um að láta framleiða peysur með áletrun á íslensku í stað ensku.