Engin urðu kaun

Í frétt á mbl.is í dag um sprengingu í Malmö í Svíþjóð segir: „Engin urðu kaun á íbúum hverfisins við sprenginguna.“ Ég hef séð á Facebook, bæði í „Málvöndunarþættinum“ og víðar, að þessi setning hefur vakið spurningar hjá fólki – orðaröðin er fremur óvenjuleg en einkum er það þó orðið kaun sem vefst fyrir fólki enda er það ekki ýkja algengt. Orðið er skýrt 'sár' í Íslenskri nútímamálsorðabók og því mætti virðast eðlilegt að nota það í þessu samhengi, en við nánari athugun kemur í ljós að sú notkun er í meira lagi vafasöm. Í Íslenskri orðsifjabók er kaun skýrt 'kýli, sár, graftrarhrúður'. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'hrúður', 'skeina', 'kýli, sár', með dæminu kaunum hlaðinn. Sömu skýringar eru í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Í öllum dæmum um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans virðist það notað um sár eða kýli sem orsakast af sýkingum eða sjúkdómum, eða þá af kali. Í Riti þess konunglega íslenzka Lærdómslistafélags 1790 segir: „Kaun er eitt höfuðnafn bæði yfir lukta og opna sulli“ og „Kaun telst og blátt fram um flestöll útbrot á húðinni“. Einnig er talað um „kaun það er vogur er inní“ – vogur er 'gröftur' þannig að þarna er átt við kýli. Í Lækningabók handa alþýðu eftir Jónas Jónassen frá 1884 segir: „Kaun nefnast þau sár, sem gröptur eða graptrarvilsa rennur úr og sem fremur vilja jeta um sig og stækka en holdfyllast og græðast.“ Í notkunardæmi í Íslensk-danskri orðabók segir: „eg var hjá honum langa tíma, meðan eg gerði við kaunin (kalsárin)“.

Í nútímamáli er orðið kaun langoftast notað í sambandinu koma við kaunin á einhverjum sem merkir 'nefna það sem er viðkvæmast hjá einhverjum', 'koma við aumu blettina á einhverjum'. Einnig er það notað í sambandinu blása í kaun í merkingunni 'blása í lúkur sér, anda á gómana á krepptum höndum til að verma þá' en þar er uppruninn sennilega annar samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þótt kaun geti vissulega merkt 'sár' eru það aðeins sár af ákveðnu tagi eins og hér hefur komið fram – það er ekki hefð fyrir því að nota orðið um sár sem orsakast af ytri aðstæðum eins og sprengingum, slysum, líkamsárásum eða einhverju slíku. Þess vegna verður að telja að notkun orðsins í umræddri frétt sé í ósamræmi við íslenska málhefð og því röng.