Ekki fokking glóru

Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ sá ég að verið var að hneykslast á þýðingu í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, þar sem ummæli Donalds Trump um Ísrael og Íran, „they donʼt know what the fuck theyʼre doing“, voru þýdd „þær hafa ekki fokking glóru hvað þær eru að gera“. Það var orðið fokking sem fór fyrir brjóstið á ýmsum sem fannst að heldur hefði átt að nota íslenskt blótsyrði en „hallærislega slettu“. Orðið er auðvitað komið af fucking í ensku sem aftur er komið af sögninni fuck sem er óformlegt og ruddalegt orð. Töluvert hefur verið skrifað um notkun orðsins í íslensku, einkum BA-ritgerð Einars Lövdahl Gunnlaugssonar, grein Veturliða Óskarssonar í Orði og tungu, og grein Ástu Svavarsdóttur um blótsyrði í sama riti.

Í ensku þykir orðið fuck sem Trump notaði sérlega gróft og alls ekki við hæfi að valdafólk noti það á opinberum vettvangi. Iðulega er vísað til þess sem „the f-word“ til að komast hjá að segja það eða skrifa, og notkunardæmi við „the f-word“ í Merriam-Webster orðabókinni er einmitt „He got in trouble for using the f-word on television“. Það má líka sjá á fyrirsögnum erlendra miðla að notkun Trumps á orðinu vekur athygli svo að ekki sé meira sagt – „Trump just became first US president to drop the F-bomb“, „Breaking another presidential norm, Trump drops the f-bomb on camera“, „Trump drops an f-bomb on live TV“, „Trump’s f-bomb toward Iran and Israel breaks norm of keeping presidential profanity off-camera“, og svo mætti lengi telja.

Vitanlega hefði mátt nota ýmis hefðbundin íslensk blótsyrði í þýðingunni og jafnvel tvinna þau saman – tala um andskotans helvítis djöfulsins glóru eða eitthvað slíkt – en það hefði ekki sýnt nógu vel þann ruddaskap og brot á félagslegum normum sem kom fram í orðfæri Trumps. Þau sem amast við fokking þarna líta fram hjá því að hlutverk þýðanda er ekki eingöngu að koma merkingu til skila heldur einnig og ekki síður að nota viðeigandi málsnið og orð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er tökuorðið fokking(s) eitt af algengustu blótsyrðum í málinu og orðið „óaðskiljanlegur hluti af íslenskum blótsyrðaforða“ eins og segir í áðurnefndri grein Ástu Svavarsdóttur. Það var einmitt rétta orðið í umræddri þýðingu.