Athugasemdir hafa áhrif

Um daginn var birt í „Málspjalli“ mynd af skilti frá Sjóvá með áletrun á ensku – Drive carefully – án nokkurs íslensks texta. Ég skrifaði Sjóvá um þetta og sagði m.a.: „Ég treysti því að fleiri skilti af þessu tagi verði ekki sett upp og þeim skiltum sem komin eru upp verði skipt út fyrir skilti sem eru bæði á íslensku og ensku – með íslenskuna á undan.“ Nú var ég að fá póst frá markaðsstjóra Sjóvá sem sagðist hafa fengið „fjölda svipaðra ábendinga um umrætt skilti“ og hélt áfram: „Við hjá Sjóvá leggjum ríka áherslu á að nota íslensku í öllum samskiptum og það á auðvitað við um skilti sem þessi. Við erum þegar farin af stað með að skipta út skiltunum og það ætti að klárast á næstu dögum. Við þurfum sannarlega að standa vörð um íslenskuna.“

Fyrir skömmu var líka skrifað í „Málspjalli“ um markaðsherferð Arion banka sem beint er til ungs fólks og rekin undir enskum einkunnarorðum. Í gær birtist frétt á vefmiðli um að hætt hefði verið við þessa herferð, og nú segist Sjóvá ætla að hafa íslensku á skiltum sínum. Ég veit að mörgum finnst óþörf smámunasemi og sparðatíningur að agnúast út í einstaka stutta texta á ensku eða þar sem ensku er hampað umfram íslensku – upplýsingar, skilti, merkingar, kynningar, auglýsingar o.fl. Fólk telur – líklega með réttu – að slíkir textar hafi lítil sem engin bein áhrif á íslenskuna. En þetta snýst ekki heldur um bein áhrif á tungumálið, heldur áhrif óþarfrar enskunotkunar á hugarfar fólks og ómeðvituð viðhorf þess til tungumálsins.

Það eru nefnilega ekki síst „smáatriði“ eins og þau sem hér eru til umræðu sem grafa undan íslenskunni vegna þess að þau ýta undir þá hugmynd að enska sé nóg og íslenska óþörf þegar ná þarf til allra. Það leiðir til þess viðhorfs að íslenska sé ófullkomin og ófullnægjandi og skapar þannig neikvætt viðhorf til hennar en ýmsar rannsóknir sýna að lífvænleiki smáþjóðatungumála veltur ekki síst á viðhorfi ungu kynslóðarinnar – ef hún hefur neikvætt viðhorf til móðurmálsins á það sér ekki viðreisnar von. Það er ástæða til að hrósa Arion banka og Sjóvá fyrir að bregðast fljótt og vel við ábendingum um óþarfa enskunotkun – og um leið er ástæða til að hvetja ykkur öll til að gera athugasemdir við fyrirtæki og stofnanir sem hampa ensku umfram íslensku.