Mörg mismunandi brögð
Í „Málspjalli“ var í dag spurt um fleirtöluna brögð í samböndum eins og mörg brögð af mat. Nafnorðið bragð hefur fleiri en eina merkingu og er vitanlega oft notað í fleirtölu í merkingunni 'klækjafullt ráð eða aðferð' en hins vegar hefur það oftast aðeins verið haft í eintölu í merkingunni 'skynjun á tungu, bragðskyn' svo að vitnað sé í skýringar Íslenskrar nútímamálsorðabókar. „Því miður hefur ft. skotið hér upp kollinum og menn flestir finna samt óbragð að þeirri notkun“ sagði Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1995 og ári seinna sagði hann að sér fyndist „ástæðulaust, að ég segi ekki fáránlegt, að nota fleirtöluna brögð í þessu sambandi“ og hún ætti „að sjálfsögðu […] ekki að heyrast í vönduðu máli“.
Það má finna slæðing af dæmum um fleirtöluna brögð í umræddri merkingu á tímarit.is. Elsta dæmi sem ég finn er í auglýsingu frá ísbúð í Morgunblaðinu 1958: „Milk-shake. Þykkur og ljúffengur. Mörg brögð.“ Í Alþýðublaðinu 1959 er sagt frá PEZ-töflum sem var nýfarið að framleiða: „Enn eru komin aðeins 2 brögð á markaðinn, en alls verða þau 8“ og „verður það væntanlega framleitt með 3 mismunandi brögðum“. Í Vísi sama ár er einnig sagt frá PEZ-framleiðslu: „Eru þetta litlar og ljúffengar töflur 14 í pakka en mismunandi brögð.“ Í Alþýðublaðinu 1961 er sagt frá nýju megrunarlyfi sem unnt er að fá „með ýmsum mismunandi brögðum“. Í auglýsingu í Dagblaðinu 1978 segir: „Tannkrem í 3 brögðum.“
Ýmis nýleg dæmi má einnig finna. Í Vísi 2013 segir: „hugmyndin var að fólk myndi upplifa öll mismunandi brögðin sem er að finna í viskíinu.“ Í Bændablaðinu 2012 segir: „það er ótrúlegt að geta búið til svona mikið af mismunandi brögðum með ostum.“ Í Vísi 2016 segir: „Þeir bjóða upp á tvöhundruð vörutegundir í sjöhundruð mismunandi brögðum og stærðum.“ Í Bleikt.is 2014 segir: „Við erum með […] fiskispjót með þrem tegundum af fisk marineruðum í mismunandi brögðum.“ Í Bændablaðinu 2015 segir: „Við […] erum á þann hátt stöðugt að þróa og bæta hin mismunandi brögð sem við fáum út úr mismunandi tegundum.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Vísindamenn hafa uppgötvað fimm hundruð ólík brögð í súkkulaði.“
Í öllum tilvikum er um að ræða einhvers konar vörur þar sem fleiri en ein bragðtegund er í boði. Þarna er því um sömu þróun að ræða og hefur orðið í fjöldamörgum orðum sem ég hef skrifað um – auk þess að vísa til ákveðinnar hugmyndar, fyrirbæris eða tilfinningar þar sem fleirtala er óþörf og óeðlileg geta þau nú vísað til tegundar eða eintaks af þessari hugmynd, fyrirbæri eða tilfinningu, og þá verður eðlilegt og nauðsynlegt að hafa þau einnig í fleirtölu. Vitanlega getur sú notkun truflað þau sem ekki hafa alist upp við hana, en fleirtalan brögð er vitanlega góð og gild í annarri merkingu og ég get ekki séð að nokkuð sé unnið með því að tala um mismunandi eða margar bragðtegundir frekar en mismunandi eða mörg brögð.