Ódýrt verð
Í „Málvöndunarþættinum“ var vitnað í frétt á síðu Ríkisútvarpsins þar sem sagði „Þar er hægt að fá allt á milli himins og jarðar á mjög ódýru verði“ og spurt hvort þetta væri „orðin góð og gild íslenska“? Um það má vitanlega deila – í Málfarsbankanum segir: „Vörur geta verið dýrar eða ódýrar en verð þeirra ekki. Í því sambandi er frekar talað um hátt eða lágt verð.“ Samt sem áður er ljóst að löng hefð er fyrir því að nota lýsingarorðin dýrt og ódýrt með nafnorðinu verð – og einnig fyrir gagnrýni á þá málnotkun. Í ritdómi Jóns Ólafssonar um ljóðmæli Einars H. Kvaran í Heimskringlu 1893 segir: „Verðið er gífrlega dýrt.“ Í svari Einars í Lögbergi sama ár segir: „Jeg hef aldrei fyrr heyrt talað um „dýrt verð“ heldur „hátt verð“ og „dýra hluti“.“
Jón lét Einar vitanlega ekki eiga neitt hjá sér og benti á að sambandið dýru verði keypt kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584 þar sem segir í Fyrra Korintubréfi: „Þér eruð dýru verði keyptir“. Þetta samband er vitaskuld mjög algengt í málinu og hefur lengi verið, og tæpast dettur nokkrum í hug að amast við því. En lýsingarorðin dýrt og ódýrt eru líka notuð með verð í öðru samhengi þótt það sé ekki eins algengt. Í Íslendingi 1875 segir: „Nú fær austanmaðurinn útlendu vörurnar hjá kaupmönnum með eins ódýru verði, eins og nærsveitamaðurinn.“ Í Ísafold 1894 segir: „Jeg undirskrifuð tek að mjer að sauma karlmannsfatnað og önnur föt, fyrir ódýrt verð.“ Í Morgni 1927 segir: „Alt, sem mikils er vert, kostar fyrirhöfn og dýrt verð.“
Í Risamálheildinni eru þúsundir dæma um dýrt og ódýrt með verð, meginhlutinn í þágufalli, með sögnunum kaupa, selja, gjalda og borga, og með forsetningunni á – á (ó)dýru verði. En talsvert er einnig af dæmum um nefnifall, í samböndum eins og (ó)dýrt verð og verðið er/var (mjög) (ó)dýrt. Þetta er hliðstætt við dýr og ódýr fargjöld sem einnig er oft amast við og ég hef skrifað um. Ýmsum finnst þetta vissulega órökrétt en það skiptir ekki máli – tungumálið er ekki og á ekki að vera fullkomlega rökrétt enda eru ótal dæmi um annað. Bæði (ó)dýr verð og (ó)dýr fargjöld á sér langa hefð í málinu, er mjög útbreitt og hlýtur að teljast rétt mál samkvæmt öllum viðmiðum. Það táknar auðvitað ekki að fólk sem fellir sig ekki við þetta þurfi að taka það upp.