Kjarnorkuákvæðið
Hið svokallaða kjarnorkuákvæði er mjög til umræðu þessa dagana. Þar er vísað til 71. greinar Laga um þingsköp Alþingis þar sem segir m.a.; „Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd. Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.“ En hvers vegna er þetta kallað kjarnorkuákvæði?
Þetta er bein þýðing á the nuclear option sem vísar til ákvæðis sem unnt er að nota til að stöðva málþóf í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þar kom heitið upp árið 2003 og vísar til þess að beiting ákvæðisins sé örþrifaráð sem geti haft alvarleg og eyðileggjandi áhrif á báða deiluaðila, rétt eins og beiting kjarnorkusprengju. Elsta dæmi sem ég þekki um orðið kjarnorkuákvæði í íslensku er í viðtali í Morgunblaðinu 2012 en þar segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem þá var í stjórnarandstöðu: „Mér finnst ólíklegt að ríkisstjórnin muni beita því sem í daglegu tali er kallað kjarnorkuákvæðið og hefur ekki verið beitt, að mér skilst, síðan 1949 þegar það urðu óeirðir á Austurvelli vegna aðildar að Nató.“
Ákvæðið hefur reyndar verið notað eftir það, en það skiptir ekki máli hér. En þótt Sigmundur Davíð hafi vísað til þess árið 2012 að orðið sé notað „í daglegu tali“ er ekkert sem bendir til þess að svo hafi verið og ekki ólíklegt að hann hafi sjálfur komið með orðið úr ensku inn í íslenska umræðu. Þrátt fyrir að umrætt ákvæði hafi lengi verið í þingsköpum og málþóf hafi margoft verið stundað á Alþingi bæði fyrr og síðar, og leiðir til að stöðva það hafi iðulega verið til umræðu, kemur orðið kjarnorkuákvæði aðeins fyrir í þetta eina skipti svo að ég viti fram til 2019. Þá brá því fyrir nokkrum sinnum í umræðu um að stöðva málþóf Miðflokksins um þriðja orkupakkann, en hefur svo lítið sést aftur fyrr en nú þegar það er í öllum fréttum.
Orðið kjarnorkuákvæði er vitanlega mjög gildishlaðið og augljóslega notað sem grýla til að fæla frá notkun ákvæðisins. Það er líka augljóst hvernig tilkoma orðsins hefur breytt umræðunni um ákvæðið – ekkert bendir til þess að beiting þess í fyrri skipti hafi haft alvarlegar afleiðingar og áður var stundum rætt um beitingu þess án þess að nokkuð væri ýjað að alvarlegum afleiðingum. „Það eru leiðir í þingsköpum til þess að stöðva málþóf. Í þingsköpum er að finna 71. greinina. Hún er enginn helgidómur og hefur aldrei verið“ sagði Ólína Þorvarðardóttir þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu 2013. Þetta er mjög gott dæmi um það hvernig orð eru notuð í pólitískum tilgangi til að stýra umræðu og móta skoðanir fólks.