Nú er Gunna á nýju skónum

Eins og alkunna er og ég hef stundum skrifað um skarast notkunarsvið forsetninganna á og í mjög oft. Oft er hægt að nota þær báðar með sömu eða hliðstæðum nafnorðum – stundum í sömu merkingu en oftast er þó einhver blæbrigðamunur á. Einn hópur orða þar sem báðar forsetningar eru notaðar en í aðeins mismunandi hlutverkum eru orð um fatnað. Við förum í föt og erum í fötum – þar er ekki hægt að nota á. Hins vegar er oft hægt að nota á um tilteknar flíkur við tilteknar aðstæður. Í kvæðinu „Aðfangadagskvöld“ eftir Ragnar Jóhannesson er Gunna á nýju skónum, Siggi á síðum buxum og Solla á bláum kjól. Hins vegar væri tæpast hægt að segja Gunna er á skóm, Siggi er á buxum og Solla er á kjól – þar yrði að vera í.

Það virðist sem í sé hin sjálfgefna og hlutlausa forsetning um föt – hún er notuð til að tilgreina að fólk sé klætt í tiltekinn fatnað, án þess að honum sé lýst nánar. Þegar fatnaðinum er lýst á einhvern hátt, tegund flíkur tilgreind eða vísað til tiltekinnar flíkur er hins vegar hægt að nota á, eins og í dæmunum hér að framan. Um þetta mætti taka fjölmörg dæmi. Það er tæpast hægt að vera á sokkum, en á sextándu öld var uppi kona sem var kölluð Ragnheiður á rauðum sokkum. Það er ekki heldur hægt að vera á treyju en Valtýr á grænni treyju er þekkt þjóðsagnapersóna. Þótt tæpast sé hægt að vera á skóm er til bók sem heitir Strákur á kúskinnsskóm. Það er líka hægt að vera á blankskóm, á stuttbuxum o.m.fl.

Forsetningin á er sem sé yfirleitt ekki notuð með dæmigerðum orðum um tilteknar flíkur, eins og buxur, skyrta, kjóll, sokkar, skór o.fl., nema þeim sé lýst nánar, annaðhvort með lýsingarorði eða í samsettu orði. Ef hún er notuð með slíkum orðum er yfirleitt um eitthvað óvenjulegt er að ræða. „Þér vil eg kenna að þekkja sprund / sem þar á buxum ganga“ kvað Sigurður Breiðfjörð eftir Grænlandsdvöl sína. Á þessum tíma þekktist það ekki á Íslandi að konur klæddustu buxum og þess vegna er á buxum eðlilegt. Í vísu eftir Símon Dalaskáld um Steingrím bónda á Silfrastöðum segir: „Hann er á tíu buxum“ (eða í annarri útgáfu „stendur á tíu buxum“) – það er vitanlega óvenjulegt að klæðast svo mörgum buxum og þess vegna er notað á.

Það eru ýmis tilbrigði í þessu og væntanlega munur milli málnotenda á því hvenær eðlilegt þykir að nota á, og þótt hægt sé að nota á við tilteknar aðstæður virðist það aldrei vera skylda – alltaf er hægt að nota í, líka þar sem á væri mögulegt. Gott dæmi um það er að finna í laginu „Sandalar“ þar sem Laddi syngur „Í sandölum og ermalausum bol“. Það er alveg eðlilegt, en vegna þess að sandalar er ekki hlutlaust orð um skó heldur ákveðin tegund, og bolnum er lýst – hann er ermalaus – gæti hann eins sungið Á sandölum og ermalausum bol. Það er líka ljóst af dæmum á netinu að iðulega er vitnað í þessa ljóðlínu með á – í Risamálheildinni eru t.d. fjórtán dæmi með í en tíu með á, sem sýnir að mörgum málnotendum finnst eðlilegt að hafa á þarna.

Þetta á við notkun forsetninganna með greinislausum nafnorðum en öðru máli gegnir þegar nafnorðið hefur ákveðinn greini. Yfirleitt er ekki hægt að nota ákveðinn greini nema orðið sem um er að ræða hafi verið nefnt áður. Þess vegna getum við ekki sagt ég er í skyrtunni nema vísað sé til ákveðinnar skyrtu sem búið er að nefna. En notkun með á lýtur ekki þeim reglum – við getum sagt ég er á skyrtunni án þess að nokkur skyrta hafi verið nefnd. Þar er hins vegar ekki vísað til tiltekinnar skyrtu, heldur verið að lýsa því hvernig ég er klæddur. Nafnorðið vísar til þess í hverju er verið yst klæða, og forsendan fyrir því að nota á og ákveðinn greini með heiti flíkur er sú að klæðnaðurinn sé lítill, eða minni en við væri að búast við tilteknar aðstæður.

Þannig getum við sagt ég er á brókinni, ég er á bolnum, ég er á skyrtunni, ég er á náttfötunum, ég er á sokkaleistunum, ég er á inniskónum o.fl. vegna þess að sá klæðnaður er frekar lítill við flestar aðstæður, en ekki *ég er á úlpunni, *ég er á buxunum eða slíkt vegna þess að sá klæðnaður er varla nokkurn tíma minni en við væri að búast. Oft fer það eftir aðstæðum hvort hægt er að nota á og ákveðinn greini – þótt við gætum sagt ég er á peysunni í hörkufrosti um hávetur væri það mjög óeðlilegt í sumarhita. Í óformlegu máli og með óformlegum orðum hefur þessi notkun á og ákveðins greinis víkkað út og nær til þess að vera ekki bara léttklæddur heldur í alls engu – talað er um að vera á túttunum, vera á pjöllunni, vera á sprellanum o.fl.