Hvernig er boðhátturinn af (um)gangast?
Í „Málvöndunarþættinum“ var nýlega vakin athygli á setningunni „Umgangastu orkufólk“ á vef Dale Carnegie og spurt hvort þetta væri „góð ráðlegging“. Þarna var augljóslega verið að vísa til boðháttarins umgangastu og í umræðum var bent á að ganga væri í boðhætti gakk, og gakktu með viðskeyttu annarrar persónu fornafni – boðháttur miðmyndar ætti því að vera gakkstu, í þessu tilviki umgakkstu, vegna þess að miðmynd væri mynduð úr germynd að viðbættu -st. Þetta er þó ekki ótvírætt – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er ekki gefinn boðháttur af umgangast en um ganga segir: „Viðtekinn boðháttur er gakktu en beygingarmyndinni gangtu bregður líka fyrir.“ Í miðmynd gefur Beygingarlýsingin hins vegar boðháttinn gangstu.
Meginreglan um myndun boðháttar er að hann er eins og nafnháttur án nafnháttarendingarinnar -a, venjulega að viðbættu annarrar persónu fornafninu þú sem birtist ýmist sem -ðu, -du eða -tu eftir gerð stofnsins – far-ðu (< far þú), kom-du (< kom þú), ver-tu (< ver þú). Sögnin ganga er þó undantekning frá þessu – þar, eins og í binda sem hefur boðháttinn bittu, hafa samlaganir leitt til þess að við fáum gakk-tu og bit-tu í stað gang-tu og bin-tu, þótt áhrifsbreytingar valdi því að við fáum oft gangtu og bintu. En að því gefnu að miðmynd sé leidd af germynd með því að bæta -st við, og boðháttur germyndar sé gakk+tu – sem er hin viðurkennda mynd þótt hún sé ekki algild eins og áður segir – ætti boðháttur miðmyndar að vera gakk+st+u.
Boðháttur af miðmyndinni gangast kemur vart til greina af merkingarlegum ástæðum nema í sambandinu gangast við einhverju. „Vertu ekki eins og saltstólpi, heldur gakkstu við ábyrgð þinni“ segir í Morgunblaðinu 1990 og er það eina dæmið sem ég finn um boðháttinn. Örfá dæmi eru hins vegar um boðhátt af umgangast. Í Þjóðviljanum 1955 segir: „umgakkstu þennan stað eins og það væri skrúðgarðurinn heima hjá þér.“ Í Vikunni 1963 eru þrjú dæmi, m.a: „umgakkstu þá vini þína sem þér þykja skemmtilegir.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „umgakkstu þá vini þína sem þér þykja skemmtilegir.“ Í DV 1980 segir: „umgangstu meira manneskju sem á erfitt með að eignast kunningja.“ Í DV 2005 segir: „Umgangstu fólk sem er hamingjusamt.“
Þarna eru sem sé fimm dæmi um boðháttinn umgakkstu, þar af þrjú augljóslega nátengd, og tvö um boðháttinn umgangstu. Í Risamálheildinni eru 140 dæmi um boðháttinn gangtu, á móti rúmlega 720 um gakktu, en ekki eitt einasta dæmi um boðhátt miðmyndar – hvorki af gangast né umgangast. Í ljósi þess að Risamálheildin hefur að geyma hátt í þrjá milljarða orða er enginn vafi á því að umræddar myndir eru afspyrnu sjaldgæfar – svo sjaldgæfar að engar líkur eru á að venjulegir málnotendur kunni þær utan að, geymi þær í minni sínu. Það þýðir auðvitað ekki að við getum ekki beitt þeim ef á þarf að halda – það þýðir hins vegar að við þurfum að búa þær til hverju sinni út frá þeim reglum sem við höfum tileinkað okkur. En hverjar eru þær?
Ein regla er vissulega sú sem áður var nefnd, að sérhver beygingarmynd miðmyndarinnar sé leidd af samsvarandi beygingarmynd germyndar með viðbættu -st. En annar möguleiki er að gera ráð fyrir að það sé aðeins grunnmynd miðmyndarinnar, nafnhátturinn, sem sé leidd af germyndinni á þennan hátt – þ.e. gang-a > gang-a-st. Þegar einu sinni er búið að leiða miðmyndina út sé hún síðan beygð eftir almennum reglum málsins, óháð germyndinni. En ef við myndum boðhátt miðmyndarinnar (um)gangast beint af nafnhættinum eins og almenna reglan er, í stað þess að mynda hann af boðhætti germyndarinnar, fáum við ekki (um)gakk-st-u, heldur (um)gang-a-st-u – sem er einmitt myndin sem vitnað var til í upphafi.
Sumar beygingarmyndir sumra orða eru svo sjaldgæfar að litlar líkur eru á að málnotendur hafi nokkurn tíma rekist á þær, og engar líkur á að þeir kunni þær utan að. Sem betur fer gerir málhæfnin okkur kleift að búa til myndir sem við kunnum ekki út frá þeim reglum sem við kunnum – og stundum getur verið val um það hvaða reglu við beitum, og ómögulegt að halda því fram að ein leið sé rétt en önnur röng. Nú ætla ég alls ekki að fara að mæla með myndinni (um)gangastu – ég er bara að benda á að hún er mynduð í samræmi við almenna reglu í málinu. Við getum auðvitað haft þá skoðun að þarna hefði fremur átt að beita annarri reglu, en í stað þess að ergja okkur yfir því ættum við fremur að gleðjast yfir sköpunarmætti málsins.