Það er oft merkingasnautt
Í „Málvöndunarþættinum“ sá ég innlegg þar sem höfundur sagðist hafa verið leiðrétt fyrir að nota það í upphafi setninga eins og það er rigning úti og það var kveikt á ofninum þegar ég kom heim – á þeirri forsendu að það vísaði þar ekki til neins sem hefði komið fyrir í samræðum áður. Vissulega er það í upphafi setninga oft vísandi, annaðhvort persónufornafn eða ábendingarfornafn. Ef við segjum Ég er búinn að lesa blaðið getum við haldið áfram og sagt Það liggur á borðinu, og þá er það persónufornafn sem vísar til orðsins blaðið og er í hvorugkyni eins og það. Við getum líka sagt Það blað er löngu farið í ruslið og þar er það ábendingarfornafn í hvorugkyni eintölu – stendur hliðstætt með nafnorðinu blað en vísar jafnframt til orðsins blaðið í upphafssetningunni.
En mjög algengt er einnig að það í upphafi setninga sé harla merkingarsnautt, án þeirrar tilvísunar sem annars er helsta kennimark fornafna. Merkingarleysi þess má m.a. marka af því að hægt er að fella það brott án þess að merking setningarinnar breytist í nokkru. Slíkt það er ýmist nefnt aukafrumlag, gervifrumlag eða leppur og oftast talið hafa eingöngu setningafræðilegt hlutverk, en ekki merkingarlegt. Ekki er unnt að fara nákvæmlega í saumana á þessu á þessum vettvangi, en í einfölduðu máli má segja að það sé notað til að koma í veg fyrir að setning hefjist á sögninni. Þetta það kemur því eingöngu fram í upphafi setningar, en hverfur sporlaust ef setningunni er breytt þannig að annar liður, svo sem andlag, atviksliður eða forsetningarliður, er settur fremst.
Við getum því sagt Það rignir mikið í Reykjavík núna, en ekki *Mikið rignir það í Reykjavík núna, *Í Reykjavík rignir það mikið núna eða *Núna rignir það mikið í Reykjavík. Því hefur verið haldið fram að tilkoma merkingarsnauðs það sé ein þeirra setningafræðilegu breytinga sem hafi orðið á íslensku á undanförnum öldum, þar eð slíkt fyrirbæri hafi ekki verið til í fornu máli. Þannig segir Jakob Jóh. Smári í Íslenzkri setningafræði frá 1920: „Nú er oft bætt inn mállægu frumlagi (það eða hann) þar, sem ekkert frumlag var að fornu.“ Ekki hefur verið kannað nákvæmlega hvenær sú breyting hafi orðið, þótt Þorbjörg Hróarsdóttir hafi sýnt fram á í meistararitgerð 1998 að mikil aukning hafi orðið í notkun slíks það í byrjun 19. aldar.
Notkun merkingarsnauðs það var lengi mjög stílbundin og margfalt meiri í talmáli og óformlegu ritmáli, svo sem einkabréfum, en í formlegri textum. Oft hefur líka verið amast við notkun þess, a.m.k. í riti. Þannig segir Jakob Jóh. Smári í Íslenzkri setningafræði frá 1920: „Fallegast mál er að nota þetta aukafrumlag sem minst“, og Björn Guðfinnsson tekur í sama streng í Íslenzkri setningafræði frá 1943: „Bezt fer á að nota þetta aukafrumlag sem minnst“. Mörg kannast líklega við það að svipuðum sjónarmiðum hafi verið haldið að þeim í skóla. En þetta er úrelt – merkingarsnautt það er löngu komið inn í formlegt ritmál og ekkert við notkun þess að athuga þar frekar en annars staðar. Hins vegar má segja að það setji oft léttari blæ á stílinn.