Málfar

Vegsummerki eða verksummerki?

Í „Málspjalli“ var í gær spurt „Vegsummerki eða verksummerki?“ og væntanlega átt við hvor myndin væri eðlilegri eða réttari. Í Íslenskri stafsetningarorðabók eru báðar myndir gefnar án þess að gert sé upp á milli þeirra, og vísað á milli – undir vegsummerki segir „einnig ritað vegsummerki“ og öfugt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er verksummerki skýrt 'merki sem sýna að e-ð hafi verið gert eða átt sér stað' en vegsummerki er aðeins skýrt með vísun í verksummerki sem er því greinilega talið eðlilegri eða réttari mynd. Sama máli gegnir um Íslenska orðabók. En í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er þessu öfugt farið – undir verksummerki er þar vísað á vegsummerki sem er skýrt 'Tegn paa el. Spor af et Værk, Arbejde el. Gærning'.

Báðar myndirnar koma fyrir í fornu máli. Það er þó ólíklegt að um sjálfstæða orðmyndun sé að ræða í báðum tilvikum – langlíklegast er að önnur myndin sé orðin til fyrir misheyrn eða misskilning á hinni enda er framburðarmunur þeirra mjög lítill. Sumum finnst eðlilegt að tengja orðið við verk og segja að það merki 'ummerki um verk' en því fer þó fjarri að alltaf sé um eitthvert verk að ræða. En einnig er hugsanlegt að tengja þetta við veg sem getur haft ýmsar merkingar, m.a. 'aðferð, háttur' sem gæti legið þarna að baki. Hvorugt er þó augljóst, en forsendan fyrir því að slíkar tvímyndir komi upp er oftast sú að uppruni orðsins sé ekki alveg augljós – það sýnir einnig rithátturinn vexummerki sem kemur líka fyrir í handritum.

Aðeins eitt dæmi er í fornu máli um verksummerki en nokkur um vegsummerki, t.d. í Gunnars sögu Keldugnúpsfífls: „Þorgrímur bóndi gekk út nokkru síðar, sér nú vegsummerki, að synir hans lágu báðir dauðir.“ Tíðnin bendir til þess að vegsummerki sé upphaflega myndin þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt um það. En báðar myndirnar eru algengar í nútímamáli þótt verksummerki sé töluvert algengari og samanburður á tímarit.is og Risamálheildinni sýnir að það dregur sundur með þeim, enda er verksummerki nú gefið upp sem aðalmynd í orðabókum eins og áður segir. En báðar myndirnar eru vitanlega rétt mál og engin ástæða til annars en fólk haldi áfram að nota þá mynd sem það hefur vanist – en sleppi því að amast við hinni.