Posted on Færðu inn athugasemd

Tökum ófullkominni íslensku fagnandi

Ég sá umræðu um það á Facebook að danskur fótboltamaður sem hefur spilað á Íslandi í meira en áratug hefði talað (lélega) ensku í sjónvarpsviðtali. Ýmsum fannst þetta ámælisvert, en í umræðum kom þó fram að hann hefði verið spurður á íslensku og skilið spurningarnar, þótt hann hefði kosið að svara á ensku. Það er vissulega umhugsunarvert að maður sem hefur verið hér árum saman og átt í miklum mállegum samskiptum við Íslendinga skuli ekki tala málið, en í stað þess að hneykslast er kannski ráð að velta fyrir sér hvers vegna þetta er svona. Líkleg ástæða var reyndar nefnd í umræðunum – hann „veit sem er að það verður bara gert grín að honum á TikTok og í klefanum ef hann reynir að tala íslensku í sjónvarpinu“.

Þetta kom meira að segja beinlínis fram í viðtali við sænskan fótboltamann sem hefur spilað á Íslandi undanfarin fjögur ár á mbl.is um daginn. Fyrirsögn viðtalsins var „Hlæja þegar fyrirliðinn talar íslensku“ og þegar hann er spurður „Ertu eitthvað að ræða við strákana á íslensku?“ er svarið: „Aðeins. Ég skil mun meira í íslensku heldur en ég tala. Strákarnir hlæja aðallega bara að mér þegar ég reyni.“ Þetta er því miður dæmigert fyrir viðbrögð okkar við ófullkominni íslensku – við hlæjum að henni og gerum grín að þeim sem tala hana. Vonandi er þetta oftast góðlátlegt grín og ekki illa meint, en það getur samt virkað særandi og meiðandi á þau sem fyrir því verða þrátt fyrir það – engum finnst gaman að láta gera grín að sér.

Eins og ég hef áður skrifað um vorum við svo lengi eintyngd þjóð að við vöndumst því ekki að heyra misgóða íslensku hjá útlendingum, og kunnum ekki að bregðast við henni. Á nítjándu öld og langt fram á þá tuttugustu voru hér nánast engir útlendingar nema fáeinir Danir –  embættismenn, kaupmenn, apótekarar, bakarar – sem töluðu brogaða íslensku. Það þótti sjálfsagt að gera grín að málfari þeirra – þetta voru jú Danir, fulltrúar herraþjóðarinnar. En þrátt fyrir þetta sé gerbreytt, og fólki sem ekki á íslensku að móðurmáli hafi fjölgað gífurlega á síðustu áratugum, erum við enn furðu föst í þessu fari. Það þykir enn ekkert athugavert við að gera grín að erlendum hreim, röngum beygingum, skrítinni orðaröð, óheppilegu orðavali o.s.frv.

Þetta er vont – miklu verra en við áttum okkur á í fljótu bragði. Það er vont fyrir fólkið sem fyrir því verður og er að reyna að tala íslensku en er slegið út af laginu með brosi, glotti, hlátri og hvers kyns glósum. Það veldur því að fólk hikar við eða forðast að tala málið, sérstaklega á opinberum vettvangi eins og t.d. í sjónvarpsviðtölum – og fær þá yfir sig hneykslun fyrir að tala ekki íslensku. En þetta er líka og ekki síður vont fyrir íslenskuna og framtíð hennar. Ef íslenskan á að lifa og vera burðarás í samfélaginu þarf að gera þeim sem hingað koma kleift að læra hana – og skapa andrúmsloft sem hvetur þau til að læra hana. Það gerum við ekki með því að gera grín að tilraunum þeirra til að tala málið. Við eigum að taka ófullkominni íslensku fagnandi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Göróttur metall

Í „Málspjalli“ var nýlega spurt hvort orðið metall væri nokkuð lengur notað í merkingu sem fyrirspyrjandi (sem er á sextugnum) sagðist þekkja frá sínum yngri árum, þegar það hefði verið haft um „áfengan drykk, ófínan og sterkan“ – „Kampavín er ekki metall en landabrugg gæti orðið metall ef vel tekst til.“ Þessa merkingarskýringu er að finna í orðabókum eins og fyrirspyrjandi nefndi – í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'vökvi, vín' og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt „ædel Drik“ eða 'eðaldrykkur'. Skýringin er innan gæsalappa sem gæti bent til þess að hana bæri ekki að skilja bókstaflega. Í Íslenskri orðsifjabók er skýringin '(ósvikinn) vökvi, einkum vín'. Spurningin er hvað „ósvikinn“ merkir þarna.

Orðið metall er tökuorð úr dönsku, komið af metal, og er oftast haft innan gæsalappa í eldri heimildum a.m.k. sem sýnir að það hefur ekki verið fyllilega viðurkennt sem íslenska. Það hefur þó verið lagað að málinu með því að gera það að karlkynsorði og gefa því nefnifallsmynd með -dl eins og öðrum karlkynsorðum með -al- í stofni (sem mörg eru reyndar tökuorð), svo sem aðall, bagall, gaffall, kristall, mórall, rafall, skandall, staðall o.m.fl. Það er þó athyglisvert að stundum helst nefnifallsmyndin með -ll í öðrum föllum. Í Vísi 1915 segir: „Hefi eg fyrir satt, að sýslum. geymi „metallinn“ eins og sjáaldur auga síns í svefnherbergi sínu.“ Í Vikunni 1961 segir: „áttu ekki svolítinn dropa eftir af þessum hérna metalli eða hvað það nú heitir?“

Elsta dæmi um metall í merkingunni 'áfengi, vín' er í bæklingnum Framtíðarmál eftir Boga Th. Melsteð frá 1891: „Hinn tók við pytlunni, saup á og mælti: […] Hvaða blessaður „metall“ er þetta?“ Hins vegar er fremur átt við einhvers konar meðal í Sunnanfara 1893: „vér þekkjum ekki þenna „metall“, sem kallast „Medicinalcognac“.“ Í Heimilisblaðinu 1896 segir um vín sem læknislyf: „Sá, sem kynnt hefir sjer dálítið sögu þessa máls, ber ekki mikla virðingu fyrir þeim „hreina metal“.“ Í Fjallkonunni 1903 segir í grein um kaffi: „En hvernig lifðu menn áður en þessi metall kom?“ Í Vísi 1914 er rætt um Kínalífselixír og sagt: „Já, það er fyrirtaks „metall““. Í Heimskringlu 1934 segir: „Ég fékk þennan metal hjá skottulækni í Róm.“

Orðið metall hefur því í upphafi ekki eingöngu verið notað um áfengi, heldur einnig um aðrar tegundir sterkra drykkja sem ætlað var að hafa góð áhrif. Einnig eru dæmi um orðið í yfirfærðri merkingu sem sýna enn frekar að það vísar til einhvers sem er sterkt og áhrifamikið, en ekki endilega sérlega fínt. Í Morgunblaðinu 1914 segir um slettur frá kamarhreinsurum: „gusurnar af þessum góða „metal“ ganga manni yfir höfuð og anga sterkara en „Eau de Cologne“. Í Suðurlandi 1916 segir um bitlinga flokkanna: „Og hefir þetta hingað til reynzt áhrifamikið svefnlyf samvizkunnar, og flokkum þarfur „metall“.“ Í Minningum þess liðna eftir Ísólf Pálsson frá miðri 20. öld segir: „Plötu tóbak þektu sumir […] enn ekki var það eptirsóttur „metall“.“

Í dönsku merkir orðið 'málmur' sem er einnig gefið sem fyrsta merking orðsins í þeim orðabókum sem vísað var til hér að framan. En í yfirfærðri merkingu getur orðið í dönsku merkt '(hrá)efni' eða 'þéttleiki' – „ofte spec. om noget, der er af særlig værdi, betydning, har særlig styrke og kraftsegir í Ordbog over det danske Sprog. Ekki virðist ólíklegt að þetta liggi að baki notkun orðsins í íslensku þótt ég hafi ekki fundið dæmi um sambærilega notkun í dönsku. En líklega er áðurnefnd merking orðsins í íslensku dauð – það er ekki gefið í Íslenskri nútímamálsorðabók og ekki einu sinni í Slangurorðabókinni frá 1982. Þegar metall hefur verið notað í íslensku síðustu 40-50 ár hefur það yfirleitt vísað til tónlistar – komið af „heavy metal“.