Í morgun var spurt í „Málspjalli“ hvort orðið bullyrðing væri nýyrði. Orðið er vissulega ekki gamalt en þó ekki alveg nýtt og er t.d. að finna á vefnum Orðabókin.is þar sem það er sagt „Íslensk þýðing á hugtakinu alternative fact“ og nefnt að elsta dæmi sem hafi fundist um það sé í athugasemd á „Moggablogginu“ 2013: „Það er eitthvað meira en lítið bogið við þessa fullyrðingu, eða öllu heldur bullyrðingu.“ Við þessa athugasemd skrifar síðuhaldari: „Bullyrðing er ágætis nýyrði!“ Annað dæmi er um orðið á Twitter 2014: „Ásakaði þig um bullyrðingar […] skal gefa þér séns samt.“ Einnig má finna dæmi á Twitter 2016, en árið 2019 komst orðið í nokkra notkun, einkum í sambandi við umræður á Alþingi og víðar um þriðja orkupakkann. Á Twitter það ár segir: „Eina góða við umræðu um OP3 er nýyrðið bullyrðingar.“
Í Risamálheildinni eru þrjátíu dæmi um orðið bullyrðing, þar af aðeins tæpur helmingur af samfélagsmiðlum en það er mjög óvenjulegt um nýleg orð af þessu tagi að þau séu meira notuð í formlegu málsniði en óformlegu. Af þessum dæmum eru sex úr ræðum fjögurra þingmanna á Alþingi árið 2019, m.a. þetta: „Þá er kannski eingöngu um svokallaða „bullyrðingu“ að ræða en „bullyrðingum“ erum við orðin býsna vön hér í þessum þingsal.“ Auk þess eru dæmi úr Vísi, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu þar sem segir 2023: „röksemdir þeirra og varnaðarorð „bullyrðingar“ sem í sjálfu sér er skemmtilegt nýyrði.“ Orðið kemur einnig fyrir í vísu eftir Sigurlín Hermannsdóttur um orkupakkaumræðuna 2019: „ég býst við að þar fari bullyrðing.“
Orðið bullyrðing er augljóslega myndað með sambræðslu nafnorðanna bull og fullyrðing. Slík sambræðsla er algeng í ýmsum málum þótt hún hafi ekki notið mikillar hylli í íslensku og einkum verið bundin við óformleg orð sem oftast eru til gamans gerð og stundum að erlendri fyrirmynd, eins og smáhrifavaldur 'áhrifavaldur með smáan hóp fylgjenda' (minfluencer, úr micro influencer). Í ensku eru ýmis þekkt dæmi um þessa tegund orðmyndunar, það þekktasta í seinni tíð Brexit (úr Britain og exit). En þessi orðmyndun er þó fullgild og eitt algengasta orð í íslensku á seinustu áratugum er meira að segja sagt myndað á þennan hátt – tölva, úr tala og völva. Orðið bullyrðing er ágætt orð sem því miður þarf sífellt meira á að halda í samtímanum.