Í gær var einu sinni sem oftar til umræðu í „Málspjalli“ hvaða kynhlutlaust orð væri hægt að nota um mannveru. Mörgum finnst þetta ekkert vandamál og segja að orðið maður þjóni þessu hlutverki ágætlega en öðrum hugnast betur að nota orðið manneskja. Það er þó talsverð andstaða við báða kosti og ólíklegt að um þá skapist almenn sátt – og sama gildir um aðrar tillögur að orðum, eins og man og menni. Það vill samt svo heppilega til að við höfum orð sem hentar fullkomlega þegar rætt er um hóp – það er orðið fólk. Það er hvorugkynsorð sem tengist ekki á neinn hátt einu kyni frekar en öðru. En það hefur einn stóran galla: Það er safnheiti en ekki teljanlegt – við getum talað um starfsfólk en ekki *tíu starfsfólk eða *eitt starfsfólk.
Eða hvað? Það virðist vera orðið nokkuð um að orðið fólk sé notað sem teljanlegt orð og talað um eitt fólk, sum fólk, nokkur fólk, mörg fólk, öll fólk o.s.frv. – um allt þetta er slæðingur af dæmum úr samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Það samræmist því sem fram kom í umræðu um þetta í „Málspjalli“ þar sem bæði var sagt „Eitt fólk, mörg fólk. Eða þannig hef ég heyrt ungmenni nota þetta“ og „Miðað við það sem ég heyri hjá ungu fólki finnst mér stefna í það að einmitt „fólk“ sé að festast í sessi sem eintöluorð“. Enn sem komið er virðist þessi notkun orðsins bundin við ungt fólk og óformlegt málsnið og þótt hún virðist fara vaxandi er ekki ljóst hversu langt þróunin er komin eða hvort og þá hvenær hún muni ná til formlegs máls.
Þessi breyting er í raun tvíþætt. Annars vegar hættir fólk að vera safnheiti og eintala þess hættir þá að vísa til hóps en fer þess í stað að vísa til einstaklings. Hin breytingin er eðlileg afleiðing þeirrar fyrri: Þegar eintalan hættir að vísa til hóps þarf að þróa aðra aðferð til að þjóna þeim tilgangi, og það er gert með því að gefa orðinu fleirtölu. Eins og í öðrum hvorugkynsorðum (nema þeim sem hafa a í stofni) hljóta nefnifall og þolfall fleirtölu að verða eins og samsvarandi föll eintölunnar. Munurinn kemur aðeins fram í þágufalli og eignarfalli fleirtölu sem verða fólkum og fólka, sem og í myndum með greini – fólkin, fólkunum, fólkanna. Um þessar myndir, nema fólkunum, má finna dæmi í Risamálheildinni þótt þau séu vissulega ekki mörg.
Þessi breyting væri svo sem ekki meiri en hefur orðið á notkun og beygingu ýmissa orða í málinu og ekki verður séð að hún torveldi skilning – setningu eins og tuttugu starfsfólk vinna hjá fyrirtækinu er varla hægt að skilja nema á einn veg. Það má líka benda á að orðið fólk er einmitt notað á þennan hátt í færeysku og hefur þar bæði eintölu og fleirtölu, en stundum er sagt að færeyska sé íslenska framtíðarinnar í þeim skilningi að ýmis málþróun þar muni koma fram í íslensku þótt síðar verði. Væru það stórkostleg málspjöll ef þessi breyting á notkun og beygingu orðsins fólk breiddist út og næði til formlegs máls? Um það verður hvert að dæma fyrir sig – en þið skuluð ekki ímynda ykkur að unga fólkið spyrji okkur gamlingjana um leyfi.