Posted on

Að pendla

Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var verið að spyrja um íslensk orð sem samsvöruðu ensku sögninni commute og nafnorðinu commuter sem höfð eru um það að ferðast reglulega milli staða, einkum heimilis og vinnustaðar. Á dönsku eru sögnin pendle og nafnorðið pendler höfð um þetta en þau eru skyld nafnorðinu pendúll sem hefur verið notað í íslensku síðan á nítjándu öld og er löngu viðurkennt tökuorð, komið úr dönsku. Það liggur beint við að nota dönsku orðin og laga þau að íslensku – sögnin pendla er raunar þegar komin í töluverða notkun, nafnorðið gæti verið pendill, og um athöfnina má nota annaðhvort kvenkynsorðið pendling eða pendlun. Þessi orð falla ágætlega að málinu – mun betur en pendúll – og ekkert þeirra er nýtt.

Það eru til dæmi um sögnina pendla frá því fyrir miðja tuttugustu öld. Í Lesbók Morgunblaðsins 1946 segir: „Vegna þess að jökulárnar „pendla“ tiltölulega hægt yfir sandana ná stór svæði að gróa upp.“ Í skákþætti í Þjóðviljanum 1946 segir: „Þetta er hægt með því að pendla kóngi hvíts.“ Í grein um lestrarkennslu í Menntamálum 1966 segir: „Þessar aðferðir hafa pendlað á milli pólanna, ef svo má segja.“ En fyrsta dæmi sem ég finn um að sögnin sé notuð um reglulegar ferðir í og úr vinnu er á Bland.is 2004: „hann pendlar yfir 3 svar í viku.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Gulli „pendlaði“ bara í vinnuna þaðan.“ Í 24 stundum 2008 segir: „Allir sem ég þekki sem pendla svona á milli Íslands og umheimsins nota hverja stund til að vinna.“

Orðið pendill er einnig til í málinu og er flettiorð í Íslenskri orðabók, í sömu merkingu og pendúll – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir „Afbrigði af pendúll“. Merkingin er þó önnur í elstu dæmum um orðið í auglýsingum frá þriðja áratugnum, t.d. í Jólagjöfinni 1921 þar sem segir: „Ljósakrónur, Borðlampar, Pendlar, Kuplar og Lampettur.“ Samhengið sýnir að orðið er þarna notað um ljós, væntanlega lampa sem hangir í snúru neðan úr loftinu, enda rímar það við merkingu orðsins pendel í dönsku. Nokkuð ljóst er að eintölumyndin pendill liggur þarna að baki fleirtölunni pendlar. En elsta dæmi um orðið í merkingunni 'pendúll' er í Rétti 1935: „Alþýðuflokksforingjarnir sveifluðust í þessari baráttu fram og aftur eins og pendill.“

Dæmi má líka finna um að nafnorðið pendling sé notað um það að ferðast á þennan hátt – „Íslendingar eru rétt að fatta pendling sístemið“ segir á Bland.is 2006. Reyndar eru eldri dæmi um orðið í eilítið annarri en náskyldri merkingu: „Þessar tiltölulega reglulegu „pendlingar“ jökulvatnanna hafa sína þýðingu“ segir í Lesbók Morgunblaðsins 1946. Verknaðarheiti af sögnum sem enda á -aði í þátíð eru reyndar oftast mynduð með -un og pendlun kæmi til greina. Sögnin pendla hefur verið töluvert notuð í íslensku undanfarna tvo áratugi – í Risamálheildinni eru á annað hundrað dæmi um hana. Nafnorðin pendill og pendling eða pendlun virðast hins vegar lítið sem ekkert ekki hafa verið notuð, en sjálfsagt er að nota þau ef þörf þykir.