Posted on

RÚV grefur undan íslenskunni og sjálfu sér

Ríkissjónvarpið birtir nú kvöld eftir kvöld auglýsingu frá Sýn sem hefst á orðunum „Here it is – the Premier League is back!“. Allt tal í auglýsingunni er á ensku – eina íslenskan í henni eru fáein orð á textaspjaldi í lokin. Þessi auglýsing samræmist augljóslega ekki sjöttu grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, þar sem segir m.a.: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Auglýsingin er líka skýlaust brot á grein 7.5 í málstefnu Ríkisútvarpsins þar sem segir: „Auglýsingar skulu almennt vera á íslensku en heimilt er að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar. Ef sérstök ástæða er til að hafa erlent tal í auglýsingum skal fylgja þýðing.“ Þetta er svo skýrt sem verða má.

Það er áhyggjuefni og raunar óskiljanlegt að svona augljóst brot á lögum og málstefnu skuli komast í gegn hjá auglýsingadeild Ríkisútvarpsins og ég vonast til að það séu mistök en ekki „einbeittur brotavilji“ sem liggi þar að baki. Ég hef skrifað útvarpsstjóra um þetta og treysti því að nú, þegar bent hefur verið á þessi mistök, verði þau leiðrétt hið snarasta og auglýsingin ekki birt oftar í þessari mynd – það ætti að vera lítið mál að setja íslenskan texta við hana þannig að hún samræmist lögum og málstefnu Ríkisútvarpsins. Verði hún birt áfram óbreytt er ljóst að málstefnan er marklaust plagg, og þá er líka full ástæða til að tilkynna málið til Neytendastofu sem sér um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu samkvæmt áðurnefndum lögum.

Þótt einhverjum kunni að virðast það sparðatíningur að fetta fingur út í eina auglýsingu á ensku, og birting umræddrar auglýsingar sé vonandi mistök eins og áður segir, er það í sjálfu sér grafalvarlegt að slík mistök skuli gerð og er lýsandi dæmi um það hversu sljó við erum orðin gagnvart enskunni í umhverfinu. En þarna hangir meira á spýtunni. Samkvæmt fyrstu grein laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 er eitt meginhlutverk þess að „leggja rækt við íslenska tungu“, og til þessa hlutverks er oft vísað til þess að rökstyðja og réttlæta tilvist ríkisrekins fjölmiðils. Með því að birta auglýsingu á ensku í augljósri andstöðu við bæði lög og eigin málstefnu er Ríkisútvarpið því ekki eingöngu að grafa undan íslenskunni, heldur einnig undan eigin tilvist.