Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvort það væri eðlilegt að byrja tölvupóst á „Sæl kæru foreldrar“. Fyrirspyrjanda fannst að þarna yrði að vera sælir vegna þess að foreldrar væru karlkynsorð. Spurningin virðist að vísu hafa verið tekin út en mér finnst samt eðlilegt að svara henni vegna þess að fleiri höfðu augljóslega áhuga og skoðanir á málinu. Það er auðvitað rétt að fleirtalan foreldrar er karlkyns þótt eintalan foreldri sé hvorugkyns en hins vegar hafa foreldrar til skamms tíma verið sitt af hvoru kyni og þess vegna er löng hefð fyrir því að vísa til þeirra með hvorugkyninu þau þótt oft hafi verið amast við því. En ef lýsingarorð stendur hliðstætt með orðinu verður það að vera í karlkyni – þau eru góðir foreldrar, alls ekki *góð foreldrar.
Þetta þýðir samt ekki endilega að lýsingarorðið sæll verði að vera í karlkyni í áðurnefndu ávarpi. Þótt lýsingarorðið standi með foreldrar er það í sterkri beygingu og ekki hliðstætt á sama hátt og lýsingarorðið kæru sem stendur næst foreldrar og er í veikri beygingu. Tvö lýsingarorð sem standa hliðstætt með sama nafnorðinu verða annaðhvort að vera bæði í sterkri beygingu eða bæði í veikri beygingu – við getum sagt bæði gamall þreyttur maður og gamli þreytti maður en hvorki *gamall þreytti maður né *gamli þreyttur maður. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að sæl í framangreindu ávarpi er ekki hliðstætt nafnorðinu foreldrar á sama hátt og kæru – það er lykilatriði að sæl er þarna eins konar ávarpsliður en ekki hliðstætt lýsingarorð.
Ávarpsliðir af þessu tagi þurfa nefnilega ekki að samræmast nafnorðinu sem á eftir kemur í kyni þótt þeir geti gert það, heldur geta miðast við kyn persónunnar sem þeir vísa til. Þetta sést vel með orðinu skáld – það er eðlilegt að segja sæll kæra skáld ef karlmaður er ávarpaður en sæl kæra skáld ef um konu er að ræða. Kannski er líka hægt að segja sælt kæra skáld óháð kyni skáldsins en mér finnst það skrítið. Það er líka eðlilegt að segja sæll hetjan mín við karlmann þótt hetja sé kvenkynsorð, og vertu sæl engillinn minn við konu þótt engill sé karlkynsorð. Ávarp eins og sæl kæru foreldrar – og einnig sæl kæru hlustendur sem nefnt var í umræðu – eru algerlega hliðstæð og í góðu lagi, en auðvitað er líka hægt að segja sælir kæru foreldrar.