Í „Málspjalli“ hefur oft verið fjallað um verkaskiptingu forsetninganna á og í sem er fjarri því að vera einföld og getur verið breytileg eftir orðum sem þær stýra, landshlutum, aldurshópum, tímabilum, og einstaklingsbundinni máltilfinningu. Meðal þeirra orða þar sem þetta er á reiki er orðið skóli og samsetningar af því – háskóli, framhaldsskóli, menntaskóli, grunnskóli o.s.frv. Í „Málvöndunarþættinum“ var nýlega bent á að við notum yfirleitt í með þessum nafnorðum og því ætti einnig að segja í leikskóla þar sem leikskólinn væri „viðurkenndur sem fyrsta skólastig barnanna okkar“. Ég hef oft rekist á svipaðar ábendingar áður, og ástæðan fyrir þeim er vitanlega sú að það er algengt að nota forsetninguna á og segja á leikskóla. Er það rangt?
Forsetningin á var mun oftar notuð með skóli og samsetningum af því áður fyrr en nú er. Á nítjándu öld og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu virðist álíka oft hafa verið talað um að ganga á skóla og ganga í skóla en síðan fór ganga í skóla að síga fram úr og ganga á skóla er mjög sjaldgæft eftir 1970. Sama gildir um samsetningar af -skóli, nema leikskóli – það virðast t.d. ekki vera nein dæmi um á grunnskóla enda var heitið grunnskóli ekki tekið upp (í stað barnaskóli og gagnfræðaskóli) fyrr en um 1970. Það virðist líka skipta máli hvaða sögn er notuð með á/í skóla – á virðist aðallega hafa verið notað með hreyfingarsögnum eins og ganga og fara en með sögninni vera var alla tíð oftast notað í þótt vissulega séu einnig dæmi um á.
En tegund skóla virðist líka hafa skipt máli – á var frekar notað með sérskólum eins og bændaskóli, húsmæðraskóli, kvennaskóli o.fl. en með orðum eins og barnaskóli, menntaskóli og háskóli. Þegar orðið leikskóli er skoðað sérstaklega verður að hafa í huga að lengi vel, a.m.k. fram um miðja tuttugustu öld, hafði það mun oftar merkinguna 'skóli fyrir leikara' en nútímamerkinguna 'uppeldis- og menntastofnun fyrir börn'. Það sést t.d. í Morgunblaðinu 1922: „Í Tyrklandi koma konur aldrei fram á leiksviði en […] nú eru stúlkur farnar að sækja leikskólana.“ Nútímamerkingin kemur þó fram um svipað leiti – í Sunnudagsblaðinu 1923 segir: „Þau eru börn systur minnar. […] Þau ganga á leikskóla. Og það er dýrt.“
Þrátt fyrir að forsetningin í sé næstum horfin með flestum samsetningum af -skóli eins og áður segir lifir hún góðu lífi með orðinu leikskóli og virðist jafnvel sækja á. Í Risamálheildinni eru tæp þrjú þúsund dæmi um vera á leikskóla en tæp tvö þúsund um vera í leikskóla. Margfalt meiri munur kemur fram með sögninni vinna – um vinna á leikskóla eru tæplega sex þúsund og fimm hundruð dæmi en tæplega níu hundruð um vinna í leikskóla. Sennilegasta skýringin á þessum mun á leikskóli og öðrum -skóla-orðum er sú að leikskólar í núverandi mynd eru arftakar barnaheimila, dagheimila og dagvistarstofnana og með þeim orðum öllum er ævinlega notuð forsetningin á. Það er að sjá sem leikskólinn hafi erft forsetninguna frá fyrirrennurunum.
En eins og oft er bent á er leikskólinn allt annars konar fyrirbæri en áðurnefndir fyrirrennarar – síðan 1994 hefur hann verið skilgreindur sem fyrsta skólastigið í samfellu við grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Þess vegna mætti gera ráð fyrir að orðið leikskóli væri meðhöndlað á sama hátt og önnur skóla-orð, og sagt í leikskóla – en það er greinilega ekki algilt. Það getur vissulega verið að einfaldlega sé um að ræða erfða málvenju sem hafi ekkert með merkingu eða tilfinningu málnotenda fyrir eðli leikskóla að gera, frekar en ýmis önnur dæmi um samspil á og í, en notkun á gæti líka tengst því að málnotendur hafi aðra tilfinningu fyrir eðli leikskóla en annarra skóla og finnist á eiga betur við – forsetninganotkun með sögninni vinna bendir til þess.
Þótt hægt sé að benda á ýmsan mun á notkun forsetninganna á og í með skóla-orðum er sjaldnast hægt að negla þann mun fast við tiltekinn merkingarmun eins og hér hefur komið fram – í mjög mörgum tilvikum er (eða a.m.k. var) hægt að nota hvora forsetninguna sem er. Það er löng og rík hefð fyrir því að segja á leikskóla og ómögulegt að halda því fram að það sé rangt. Hins vegar er vel hægt að skilja það sjónarmið að slík forsetninganotkun setji leikskólann ómeðvitað skör lægra en önnur skólastig í huga fólks og tengi hann fremur við stofnanir og heimili þar sem fólk er vistað, þótt vitanlega sé það ekki ætlunin hjá þeim sem segja á leikskóla. Ég mæli þess vegna með því að nota forsetninguna í eins og með öðrum skólum og segja í leikskóla.