Í dag hefur orðið sérkennileg og óviðkunnanleg umræða á vef- og samfélagsmiðlum um málnotkun mennta- og barnamálaráðherra í viðtali á Bylgjunni í morgun þar sem ráðherrann notaði orð og orðalag sem ekki fellur að viðteknum málstaðli – sagði bæði „mér hlakkar til“ og „ég vill“ auk þess sem hann talaði um „einkanir“. Vísir ræddi um þetta við Jóhannes Gísla Jónsson prófessor sem benti á að tvennt hið fyrrnefnda væri mjög algengt en taldi það síðastnefnda sjaldgæft og sagði: „„Þannig að það má halda uppi vörnum fyrir Guðmund Inga hvað varðar þágufallssýkina og „ég vill“ en það er kannski erfiðara með einkanir.“ Eins og ég skrifaði um fyrr í dag er þó ljóst að einkanir er gamalt í málinu og talsvert algengt.
Það er auðvitað með ólíkindum að á 21. öldinni sé fólk enn hætt og spottað fyrir að tala það mál sem það er vant og hefur alist upp við. En ekki nóg með það, heldur er ýmist látið að því liggja eða beinlínis sagt berum orðum að „málvillur“ ráðherrans beri vott um menntunarskort hans, málfar hans sé „óskiljanlegt“ og sýni að hann sé ekki fær um að gegna því embætti sem hann situr í. Þetta er gert þrátt fyrir að ljóst sé að þau frávik frá málstaðlinum sem komu fyrir í máli ráðherra eru ekki „ambögur“ eða „bögumæli“ frá honum komin, heldur gömul og útbreidd í málinu, og þrátt fyrir að ljóst sé að engin bein tengsl eru milli menntunar og „vandaðs máls“, og ekki heldur milli óskýrleika í máli og frávika frá málstaðli (svokallaðra „málvillna“).
Sem betur fer virðist ráðherrann ekki láta þetta mikið á sig fá – „Ég hef ekki miklar áhyggjur af því hvort ég tali rétt eða rangt. Hvernig ég tala, ef ég hefði áhyggjur af því þá myndi ég ekki tala neitt“ segir hann. Það er auðvitað rétt – ráðherrann er kominn á þann aldur að það er ekki líklegt að hann fari að breyta því máli sem hann hefur vanist og talað frá barnæsku. En það breytir því ekki að þarna var málnotkun hans notuð til að gera lítið úr honum og vegna þess hversu föst við erum í því hvað sé „rétt mál“ og hvað „rangt“, og hversu ríkt það er í mörgum að líta niður á þau sem tala „rangt mál“, er líklegt að þessi umræða hafi áhrif á viðhorf einhverra til ráðherrans og hann setji niður í augum þeirra. Skaðinn er því skeður.
Tungumálið er öflugt valdatæki sem má beita bæði til góðs og ills. Þau sem hafa gott vald á hinu „rétta“ og „viðurkennda“ máli – og skilgreina viðmiðin – nýta þetta tæki stundum til að tala niður til hinna sem tala mál sem víkur í einhverju frá þessum viðmiðum – nota frávikin til að gera lítið úr þeim og málflutningi þeirra þannig að umbúðirnar, frávikin frá „réttu“ máli, verða aðalatriðið en efnið, það sem sagt er, hættir að skipta máli. Þetta er ómerkilegt, lúalegt og ljótt. En ekki bara það – þetta er andlýðræðislegt vegna þess að það fælir fólk frá þátttöku í stjórnmálum og opinberri umræðu. Engum finnst þægilegt að láta hæðast að sér og málfari sínu. Umræðan um málfar ráðherrans var dapurleg og þeim sem hneyksluðust ekki til sóma.