Í „Málvöndunarþættinum“ sá ég hneykslast á því að tiltekinn ráðamaður hefði talað um „einkanir“ í útvarpsviðtali. Þarna var um að ræða fleirtölu orðsins einkunn í merkingunni 'vitnisburður fyrir frammistöðu á prófi' og vissulega er viðurkennd fleirtala þess ekki einkanir heldur einkunnir. Ástæðan er sú að þótt einkun rími við seinkun er orðið myndað á annan hátt – seinkun er myndað af sögninni seinka með viðskeytinu -un og mikill fjöldi kvenkynsorða er myndaður af sögn á sama hátt. En fjögur kvenkynsorð sem enda á -un eru ekki mynduð þannig, heldur er seinni hluti þeirra kvenkynsorðið kunn sem merkir 'eigind, kennimark', og þess vegna eru þau rituð með tveimur n-um – þetta eru orðin einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn.
Í áhersluleysi er enginn framburðarmunur á einföldu og tvöföldu n og þess vegna hljómar seinni hluti þessara orða alveg eins og seinni hluti orða myndaðra með -un. Þar sem síðari hópurinn er margfalt stærri hafa málnotendur eðlilega tilhneigingu til að hafa bara eitt n í áðurnefndum fjórum orðum og skrifa einkun, forkun, miskun og vorkun með einu n-i í stað hinna viðurkenndu mynda einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn – reyndar kemur forkunn eiginlega aldrei fyrir nema í samsetningum eins og forkunnarfagur, forkunnarvel o.fl. Við þetta bætist að orðin eru ekki gagnsæ – orðið kunn kemur aldrei fyrir eitt og sér og málnotendur þekkja því ekki merkingu þess. Þess vegna þarf alltaf að kenna þessi orð sérstaklega í stafsetningarkennslu.
Ritun umræddra fjögurra orða með einu n-i á sér langa hefð, allt frá nítjándu öld í þremur þeirra. Í Norðlingi 1876 segir: „Ólafur Ólafsson frá Melstað […] með 2. einkun 47 stig.“ Í Skuld 1882 segir: „fengu báðir 2. betri einkun.“ Í Fjallkonunni 1896 segir: „að hann hafi hlotið blátt áfram aðra einkun.“ Í Fjölni 1838 segir: „með því verði sem hann af miskun sinni vill gjefa.“ Í Norðurfara 1849 segir: „helga moldir þeirra með miskun þinni.“ Í Skírni 1829 segir: „Ad hinu leytinu er Írskum mjög vorkun.“ Í Fjölni 1863 segir: „Á þessu er aungvum manni vorkun að skinja, hvað það er rángt.“ Elstu dæmi um forkun með einu n-i eru nokkru yngri en þó meira en hundrað ára. Í Heimskringlu 1909 segir: „var þar tekið forkunarvel á móti okkur.“
En þessi samsömun orðanna við þau sem hafa viðskeytið -un hefur ekki bara áhrif á stafsetninguna, heldur einnig á beyginguna. Orð með -kunn að seinni lið eiga að fá fleirtöluna -kunnir en orð með viðskeytið -un fá fleirtölu með -anir, en vegna áhrifa frá síðarnefnda hópnum fær einkun(n) oft fleirtöluna einkanir, sbr. seinkanir – hin orðin þrjú, forkunn, miskunn og vorkunn, eru aldrei notuð í fleirtölu. Þessi beyging er vel þekkt síðan snemma á tuttugustu öld. Í Vestra 1909 segir: „eru þar birtar einkanir hvers félagsmanns.“ Í Dagsbrún 1915 segir: „Ég fór að reyna að lesa úr andliti hans hugsanir og lyndiseinkanir.“ Í Fréttum 1918 segir: „einkanirnar fyrir það munnlega voru svo lágar, að tæpast svaraði meðal-frammistöðu.“
Þrátt fyrir að á fátt hafi verið lögð meiri áhersla í stafsetningarkennslu undanfarinna áratuga en að orðin einkunn, forkunn, miskunn og vorkunn eigi að rita með tveimur n-um er ljóst að myndirnar einkun, miskun og vorkun lifa góðu lífi í ritmáli almennings. Í Risamálheildinni eru hátt í 2.400 dæmi um eintölumyndir af einkun, fimm hundruð um eintölumyndir af miskun og hálft fjórtánda hundrað um eintölumyndir af vorkun. En þetta tekur ekki bara til ritháttar – hátt í sjö hundruð dæmi eru um fleirtöluna einkanir. Það ýtir enn undir þessa beygingu á einkun(n) að til er orðið tileinkun sem er myndað með viðskeytinu -un af sögninni tileinka (ósamsetta sögnin einka var til í fornu máli en er horfin úr málinu) og það orð fær fleirtöluna tileinkanir.
Ég er almennt séð stuðningsmaður samræmdrar stafsetningar og fastra stafsetningarreglna, en hins vegar hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að einfalda reglur um einritað og tvíritað n í endingum orða og rita bara einfalt n enda enginn framburðarmunur á n og nn. Í þessu tilviki hangir að vísu dálítið meira á spýtunni vegna þess að -kunn er upphaflega sjálfstætt orð en hvorki viðskeyti né beygingarending – einkunn er því samsett orð þótt seinkun sé afleitt. Það má segja að þessi tengsl við upprunann glatist ef farið er að skrifa orðið með einu n-i. En tengslin við upprunann eru hvort eð er ekki fyrir hendi í huga venjulegra málnotenda sem ekki þekkja orðið kunn. Ég myndi vilja leyfa ritháttinn einkun – og fleirtöluna einkanir.