Því er iðulega haldið fram að málfarsleiðréttingar og málvöndunarstefna, ekki síst í kennslu, sé til þess fallið að draga úr málfarslegum stéttamun vegna þess að það komi öllum á sama stig – lyfti þeim upp sem ekki hafi alist upp við „rétt mál“ og það komi sér vel fyrir nemendur að læra að forðast „málvillur“ því að þar með sé ekki hægt að nota málfar þeirra gegn þeim. Þetta kann að hljóma vel en veruleikinn er því miður annar. Það málfar sem allir nemendur áttu að tileinka sér var nefnilega ekki málfar þeirra sem minna máttu sín, ekki málfar verkafólks eða sjómanna. Börn úr þeim hópum voru því mun verr sett – þurftu að leggja mikið á sig til að tileinka sér hið viðurkennda málfar sem börn betur settra foreldra höfðu drukkið í sig með móðurmjólkinni.
En þar fyrir utan var það auðvitað ekki þannig að öll börn sem töluðu „rangt mál“ hefðu tækifæri til að ná valdi á því sem taldist „rétt“. Það voru fyrst og fremst börn í „góðum“ bekkjum í „góðum“ skólum, einkum þau sem fóru í menntaskóla – og þar voru börn af lægri stigum miklu síður. Þar að auki fólst kennslan áður fyrr ekki bara í því að venja nemendur af „málvillum“, heldur einnig í því að vara við þeim, m.a. með því að gefa þeim fráhrindandi heiti eins og „þágufallssýki“ og „flámæli“. Auk þess að kenna mál hinna betur settu sem „rétt“ fólst í þessu að alið var á fordómum gagnvart þeim sem notuðu tiltekin afbrigði sem talin voru „málvillur“ – gefið var í skyn eða sagt berum orðum að þau væru á einhvern hátt ómenntaðri eða heimskari.
Þetta má glögglega sjá á þeim fjölmörgu gildishlöðnu orðum sem notuð voru um mál sem ekki þótti „rétt“ – orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“ eða „þágufallssjúkir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík. Einstrengingsleg málvöndun leiðir af sér fordóma og stuðlar að málfarslegri stéttaskiptingu.
Vissulega hefur dregið úr þessum fordómum en þeir lifa þó enn góðu lífi, a.m.k. hjá okkur sem ólumst upp við þá á seinni hluta síðustu aldar. Þetta er svo djúprætt í okkur – ég segi fyrir mig að þrátt fyrir að hafa háð langa innri baráttu við mína fordóma, og ríkan vilja til að losna við þá, kippist ég enn við þegar ég heyri mér langar eða eitthvað slíkt og á erfitt með mig að setja mælandann ekki ósjálfrátt skör lægra í huga mér. Þess vegna skil ég vel að fólki á mínum aldri – sem er áberandi í hópi þeirra sem gagnrýna málfar annarra – finnist agalegt að því sé haldið fram að það sé ekkert athugavert við margt af því sem við ólumst upp við að væru „málvillur“ sem ætti að forðast eins og heitan eldinn og bæru vott um menntunar- eða gáfnaskort.
En ef við viljum í raun og veru draga úr málfarslegri stéttaskiptingu og gera öll jafnsett málfarslega séð – sem er sannarlega gott og göfugt markmið – verður það ekki gert á þann hátt að halda dauðahaldi í gömul viðmið um „rétt“ og „rangt“ og kalla það „málvillur“ sem er eðlilegt mál verulegs hluta þjóðarinnar. Við munum augljóslega aldrei geta útrýmt ég vill, mér hlakkar til og fjölmörgum öðrum „málvillum“. En sem betur fer er til önnur leið sem er vænlegri til árangurs í baráttu gegn málfarslegri stéttaskiptingu. Hún er sú að auka umburðarlyndi fólks gagnvart tilbrigðum í máli – viðurkenna að við þurfum ekki öll að tala eins, og mál sumra er ekki „betra“ eða „réttara“ en mál annarra. Þannig vinnum við gegn málfarslegum stéttamun.