Ég hef haldið því fram að það sé eðlilegt að við höldum í þá íslensku sem við ólumst upp við og tileinkuðum okkur á máltökuskeiði – hún geti ekki verið röng. Þetta er vitanlega umdeilanlegt viðhorf og í gær fékk ég eftirfarandi spurningu í framhaldi af skrifum mínum: „Er þá nokkur ástæða til að eyða fjármunum í að kenna börnum íslensku (málfræði, stafsetningu o.s.frv.) ef málfarið skiptir svo engu máli svo lengi sem fólk talar þá íslensku sem það ólst upp við?“ Það er eðlilegt að svona sé spurt, og ég hef oft áður fengið spurningar og athugasemdir í sama dúr. En á bak við þetta liggur sá misskilningur að málfræði sé einkum spurning um „rétt“ og „rangt“, og íslenskukennsla hljóti að felast í því að kenna nemendum hvað sé „rétt“.
Sem betur fer er þetta ekki svo. Málfræði er svo ótalmargt annað sem hægt er – og mikilvægt – að fræða nemendur um. Það er hægt að kenna um málkerfið og tilbrigði málsins í framburði, beygingum, setningagerð, merkingu og orðaforða; það er hægt að opna augu nemenda fyrir því undursamlega ferli sem máltaka barna er; það er hægt að fræða nemendur um félagslegt hlutverk tungumálsins og notkun þess sem valdatækis; það er hægt að þjálfa nemendur í orðræðugreiningu, láta þau skoða mismunandi texta og greina markmið þeirra og málbeitingu; o.m.fl. Auðvitað verður að laga þetta að aldri og þroska nemenda, en ég ætla að vona að flest af þessu sé þegar kennt í íslensku skólakerfi og hef enga ástæðu til að efast um að svo sé.
Þetta þýðir ekki að alveg eigi að þegja um „málvillur“ og ekkert minnast á mér hlakkar til, ég vill og annað slíkt. Vegna þess hversu hart og lengi hefur verið barist gegn mörgum þessum tilbrigðum hafa þau á sér ákveðinn stimpil sem er mikilvægt að þvo af þeim þannig að nemendur þurfi ekki að skammast sín fyrir málfarslegan uppruna sinn. En meðan þessi tilbrigði hafa enn þennan stimpil í augum margra þurfa nemendur að vita af honum. Þau eiga rétt á því að vita að ef þau nota tiltekin tilbrigði í máli sínu getur það komið þeim í bobba og spillt fyrir þeim við ákveðnar aðstæður. Með því að fræða nemendur um þetta er ekki verið að viðurkenna réttmæti þess að gera upp á milli tilbrigða málsins, heldur einfaldlega verið að viðurkenna staðreyndir.
En tíma sem eytt er í að kenna nemendum að eitt tilbrigði málsins sé „rétt“ en önnur „röng“ er illa varið og skilar sér ekki í betri málnotkun eða málnotendum, hvað þá í auknum áhuga á íslensku máli. Það skiptir engu máli hvort nemendur sem koma út úr skólunum segja ég hlakka til og ég vil eða mér hlakkar til og ég vill. Það sem skiptir öllu máli er að út úr skólunum komi nemendur sem eru örugg í sinni málbeitingu og sátt við hana; nemendur sem hafa fengið þjálfun í því að nota íslensku á fjölbreyttan hátt og hafa gaman af því; nemendur sem hafa jákvætt viðhorf í garð tungumálsins og vilja efla það og nota á öllum sviðum – en jafnframt nemendur sem eru umburðarlynd gagnvart tilbrigðum í máli og flokka fólk ekki eftir málfari.