Athygli mín var vakin á myndböndum sem birt eru á vef Reykjavíkurborgar og gerð hafa verið „vegna kynningar á vinnslutillögu rammahluta aðalskipulags Keldna og nágrennis“ og eru ætluð til þess „að auðvelda fólki að kynna sér málið“. Þetta er auðvitað gott og blessað, en athygli vekur að þótt talið í myndbandinu „Skipulag Keldnalands“ og neðanmálstexti með því sé vissulega á íslensku er titill myndbandsins á ensku, „Crafting Keldur“, enn fremur millifyrirsögnin „A Creative and Vibrant District close to Nature“ og svo kemur „Welcome to Keldur“ í lokin. En ekki nóg með það – nær allar þær fimm mínútur sem tekur að spila myndbandið eru myndir af skipulaginu á skjánum og allir skýringartextar þar eru á ensku.
Þótt tal og neðanmálstexti myndbandsins „Skipulag Keldnalands“ sé á íslensku eins og áður segir fer því fjarri að allar upplýsingar sem verið er að koma á framfæri með því séu í þeim texta. Mikið af upplýsingum kemur eingöngu fram í ensku skýringartextunum sem eru fjölmargir. Ég er ekki viss um að þetta samræmist málstefnu Reykjavíkurborgar frá 2018 þar sem lögð er áhersla á notkun íslensku og sagt: „Allt efni sem skylt er að upplýsa borgarbúa og hagsmunaaðila um samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum skal birta á vandaðri og auðskiljanlegri íslensku. Þetta á meðal annars við um skipulagsákvarðanir, grenndarkynningar, auglýsingar, tilkynningar, reglugerðir og aðrar samþykktir.“
Hugsanlega má halda því fram að kynningarmyndband af þessu tagi falli ekki undir þetta ákvæði, en það er samt ljóst að það er ekki í anda stefnunnar að hafa það á ensku, og ekki heldur í samræmi við Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 þar sem segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga“ og „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð“. En til að sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að annað myndbandið, „Keldur og nágrenni“, sem er talsvert lengra eða tæpar fjórtán mínútur, er eingöngu á íslensku – tal, texti og skýringar. Það myndband er til fyrirmyndar – en það er engin afsökun fyrir enskunni í hinu.