Posted on

Helling af berjum

Í gær var spurt í „Málspjalli“ um orðið hellingur í merkingunni 'mikið af einhverju' sem fyrirspyrjandi sagðist hafa í karlkyni en heyra oft í kvenkyni að því er virtist – „Það er alveg helling af berjum í Stífluhólum“. Jón G. Friðjónsson skrifaði um orðið í einum af þáttum sínum sem birtir eru í Málfarsbankanum og sagði að notkun þess væri „einkum bundin við talmál og mál líðandi stundar, og það væri „ekki gamalt í íslensku“ – elstu dæmi um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans væru frá miðri tuttugustu öld. Vísunin er augljós, sagði Jón enn fremur: „Hellingur merkir upphaflega 'það sem hellt er' en fær síðan merkinguna 'hellidemba' og sú merking virðist liggja til grundvallar merkingunni 'mikið magn; eitthvað mikið'.“

En undanfari karlkynsorðsins hellingur er kvenkynsorðið helling sem er gefið í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í þremur merkingum – 'úthelling', 'austur‘ og 'steypiregn'. Síðastnefnda merkingin er merkt „Vf.“, þ.e. talin bundin við Vestfirði. Karlkynsmyndin hellingur er ekki í bókinni en er hins vegar komin inn í Viðbæti hennar frá 1963, sem og í Íslenska orðabók þar sem hún er skýrð annars vegar 'hellidemba' sem sagt er „stb.“, þ.e. staðbundið, og hins vegar 'mikið magn, e-ð mikið'. Merkingin 'hellidemba' í karlkynsorðinu hellingur er því ættuð frá kvenkynsorðinu helling sem merkir upphaflega 'það að hella' eða 'það sem hellt er' – hins vegar er óvíst að karlkynsorðið hafi nokkurn tíma haft þá merkingu.

Elsta dæmi um helling er í latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason frá 1738: „Helling úr einn í annað“ sem er skýring á transfusio. Í Ísafold 1889 segir: „alt af hjelzt sama hellingin úr loptinu.“ En dæmi um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru fá og má rekja flest til Vestfjarða sem rímar við það sem segir í Íslensk-danskri orðabók – eitt þeirra er úr Konunginum á Kálfskinni eftir Guðmund G. Hagalín frá 1945: „Þetta er nú soddan helling úr loftinu.“ Aftur á móti eru samsetningarnar úthelling (t.d. tára) og blóðsúthelling (sem oftast er í fleirtölu, blóðsúthellingar) algengar allt frá sextándu öld. Yngri eru svo samsetningar eins og áhelling, niðurhelling, umhelling, uppáhelling, yfirhelling og fleiri.

En karlkynsmyndin hellingur, í venjulegri nútímamerkingu, gæti verið talsvert eldri en Jón G. Friðjónsson taldi. Í Almanaki fyrir árið 1903 segir: „Brezka stjórnin gjörði fréttaþræði að þjóðareign og lækkaði verð á hraðskeytum um helling.“ Að vísu er þetta ekki öruggt dæmi vegna þess að þótt kvenkynsorð sem enda á -ing fái núna endinguna -u í þolfalli voru þau áður endingarlaus og því er hugsanlegt að þarna sé um kvenkynsorðið helling að ræða. En um 1940 verður karlkynið algengt. Í Vísi 1939 segir: „með skipinu er hellingur af prestum, nunnum og munkum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1944 segir: „Svo kom hellingur af tvíræðum bröndurum.“ Í Úrvali 1945 segir: „Segið þeim að senda heilan helling.“ Fjöldi dæma er svo frá næstu árum.

Eignarfallsmyndin hellings, sem hlýtur að vera karlkynsmynd, er þó mun eldri í samsetningum í eldri merkingu. Í Reykvíkingi 1893 segir: „til að taka á móti köldum hellings-regnskúrum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1932 segir: „hann ætlaði að gera hellings skúr úr einhverri átt.“ Þarna er merkingin augljóslega 'úrhelli', en svo fara málnotendur að skynja þetta sem áhersluorð og tengingin við rigningu hverfur. Það má t.d. sjá í Sjómannablaðinu Víkingi 1950: „ef þeir fengju reglulega törn í hellings fiskiríi vestur á Hala.“ Í Vísi 1956 segir: „Hellings síldveiði í nótt.“ Orðið er þarna skrifað sérstakt en er einnig oft haft áfast eftirfarandi orði – „Sumir fengu hellingsafla“ segir í Vísi 1963. En hlutverk þess er það sama hvort sem heldur er.

Kvenkynsmyndin helling í nútímamáli gæti vissulega verið leifar af eldri notkun kvenkynsins en það virðist þó ekki trúlegt vegna þess að nær engin dæmi eru um kvenkynið undanfarin 80-100 ár. Það er hins vegar auðvelt að sjá hvernig kvenkynið gæti hafa orðið til úr karlkyninu. Ef sagt er t.d. ég fann helling af berjum í Stífluhólum virðist í fljótu bragði augljóst að helling sé þolfall karlkyns vegna þess að kvenkynsorð myndi enda á -u í þolfalli – vera hellingu. En vegna þess að langoftast kemur af á eftir myndi -u venjulega falla brott í framburði – hellingaf. Þótt framangreint dæmi sé einrætt í riti er það því tvírætt í tali og vel hugsanlegt að málnotendur skilji það sem kvenkyn, enda miklu fleiri kvenkynsorð en karlkynsorð með -ing-.