Posted on

Hvað er umburðarlyndi?

Í pistli sem ég birti á Facebook-síðu minni í morgun skrifaði ég: „Mér finnst að þetta tvennt hafi breytt mér – gert mig víðsýnni og umburðarlyndari gagnvart hvers kyns fjölbreytileika mannlífsins.“ Ég fékk fleiri en eina athugasemd um að umburðarlyndur væri ekki rétta orðið þarna því að það merkti eiginlega 'láta sig hafa eitthvað sem er bagalegt og ekki alveg boðlegt' eins og það var orðað í einni athugasemdinni, með vísun til þess að í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'sem tekur vægt á yfirsjónum eða andstöðu annarra'. Þetta kom flatt upp á mig vegna þess að þetta var sannarlega ekki sú merking sem ég lagði í orðið í umræddum pistli. Mér finnst umburðarlyndi ekki þurfa að hafa neitt með yfirsjónir að gera.

Í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið umburðarlyndur skýrt 'sem sýnir umburðarlyndi' og fyrsta skýring þess orðs rímar við skýringuna á umburðarlyndur í Íslenskri nútímamálsorðabók – 'það að taka vægt á yfirsjónum eða andstöðu annarra, mildi'. En orðið er einnig skýrt 'það að virða skoðanir eða atferli annarra' og 'þolgæði, rósemi, jafnaðargeð'. Síðarnefndu skýringarnar eiga miklu betur við þá merkingu sem ég lagði í orðið í pistli mínum – og geri raunar yfirleitt. Þess vegna kom mér á óvart að aðeins fyrsta merkingin skyldi vera í Íslenskri nútímamálsorðabók, en skýringin er kannski að hún endurspeglar yngri málnotkun en Íslensk orðabók – sú síðarnefnda stendur nær málstigi þess tíma þegar ég var að alast upp og tileinka mér málið.

Athugasemdirnar og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók gætu bent til þess að sú merking sem fólk leggur venjulega í umburðarlyndi hafi breyst á undanförnum árum. Í bókinni Gæfuspor. Gildin í lífinu eftir Gunnar Hersvein sem kom út 2005 segir þó í sérstökum kafla um umburðarlyndi: „Umburðarlyndi felst í skilningi á viðhorfum og framkomu sem er andstæð eða ólík eigin lífsstíl og sýn. Umburðarlyndi birtist einnig í mildi gagnvart yfirsjónum og mótmælum. [...] Umburðarlyndi krefst líka hleypidómaleysis. Umburðarlyndi er að þola öðrum mönnum að hafa skoðanir, halda í heiðri hefðir, vera af ólíkum litarhætti og iðka trú af ólíkum toga.“ Þetta rímar ágætlega við þá merkingu sem ég legg í umburðarlyndi og umburðarlyndur.

Sama má segja um eina skilgreiningu af þremur sem birtar eru í Eimreiðinni 1927 og eru svör sem bandarísku tímariti bárust frá lesendum við spurningunni „Hvað er umburðarlyndi?“: „Umburðarlyndi hefur þrjár hliðar. Það birtist í tilfinningum, vitsmunum og siðferði. Í tilfinningunum kemur það fram sem mannúð, í vitsmununum sem skilningur á orsökum og ástæðum fyrir breytni annara, og í siðferði sem föst og skýr siðgæðismeðvitund. Þetta þrent samanlagt gerir það að verkum, að vér umberum, metum réttilega og styðjum oft athafnir, sem eru í andstöðu við eigin eðli vort og skoðanir. Siðferðilega hliðin varnar því, að umburðarlyndið verði að læpuskap, og tryggir það, að umburðarlyndi verði uppspretta máttar en ekki veikleika.“