Mér var send auglýsing um viðburð sem er ætlaður unglingum í nokkrum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og nefnist „Back to School ball“. Á auglýsingunni stendur m.a.: „Line-up kemur seinna!“ Það er ekki eins og þessi ensku orð eigi sér ekki íslenskar samsvaranir, en sjálfsagt er hugmyndin á bak við þetta sú að enskan höfði betur til unglinganna – og kannski er það rétt. Það hefur komið í ljós í rannsóknum að unglingar tengja námsgreinina íslensku oft við skyldu, utanbókarlærdóm og leiðréttingar, en ensku tengja þau við afþreyingu, ferðalög og skemmtun. Þessar tengingar hafa vitanlega áhrif á viðhorf þeirra til tungumálanna – en eigum við að hlaupa eftir því þótt unglingunum finnist kannski enskan eiga betur við þarna?
Íslenskan á undir högg að sækja gagnvart enskunni og það skiptir miklu máli að hún sé notuð sem víðast. Rannsóknir benda til að viðhorf ungu kynslóðarinnar sé eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir lífvænleik tungumála – ef ungt fólk hefur ekki jákvætt viðhorf til móðurmáls síns er málið í alvarlegum vanda. Með því að nota ensku á þennan hátt til að auglýsa skemmtanir er í raun – örugglega ómeðvitað – verið að senda þau skilaboð að íslenskan henti ekki, dugi ekki eða eigi ekki við á þessu sviði og þar með verið að vinna skemmdarverk á viðhorfum unglinga til hennar. Það hlýtur að vera hlutverk skólanna að halda íslenskunni að nemendum í stað þess að láta berast með straumnum og nota ensku þótt nemendum kunni að þykja hún eiga betur við.