Posted on

Sigursælni

Fyrirsögnin „Forsetinn segir nýtt heiti varnarmálaráðuneytisins senda skilaboð um sigursælni“ á vef Ríkisútvarpsins í gær vakti athygli mína – ekki af efnislegum ástæðum heldur vegna nafnorðsins sigursælni sem einnig kom fyrir inni í fréttinni sjálfri. Þetta orð er vissulega auðskilið og hljómar ekki framandi en er þó ekki að finna í neinum orðabókum. Það er augljóslega leitt af lýsingarorðinu sigursæll sem er vel þekkt og skýrt 'sem á oft sigri að fagna' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Venjulega nafnorðið af því er sigursæld sem ekki er í Íslenskri nútímamálsorðabók en er gefið í Íslenskri orðabók – ásamt kvenkynsorðinu sigursæla og karlkynsorðinu sigursæli í sömu merkingu. Öll þrjú koma fyrir í fornu máli, en ekki sigursælni.

Það orð er þó ekki alveg nýtt – á tímarit.is eru tvö gömul dæmi um orðið, bæði úr Vísi 1943: „Þrátt fyrir sigursælni sína mun Montgomery ekki koma til hugar að leggja tafarlaust til atlögu við varnir Rommels“ og „Þjóðverjar hafa sjálfir undirbúið jarðveginn fyrir hrun með sigursælni sinni“. Í Risamálheildinni eru sex dæmi um orðið frá þessari öld, öll nema eitt úr íþróttafréttum mbl.is – raunar öll úr kappakstursfréttum og því ekki ólíklegt að þau séu skrifuð af sama manni – þar á meðal „Vettel virðist óstöðvandi því auk sigursælni hefur hann unnið alla fjóra ráspóla ársins“ frá 2011. Auk þess er eitt dæmi af fótbolti.is 2018: „Það má rekja til að mestu sigursælni þýska landsliðsins í kringum heimsmeistaratitilinn þeirra 2014.“

Orðið sælni eitt og sér kemur fyrir í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 og er skýrt 'positiv tropisme'. Það er einnig að finna í „Orðasafni úr uppeldis- og sálarfræði“ í Íðorðabankanum sem samheiti við aðhvarf og er skýrt 'umhvarf í átt til áreitingar'. Það er leitt af lýsingarorðinu sælinn sem einnig er í áðurnefndum Viðbæti og er komið úr Nýyrðum I frá 1953 þar sem það er gefið sem samheiti við leitni. Orðin sælinn og sælni eru aldrei notuð ein og sér en koma fyrir í nokkrum samsetningum, svo sem ásælinn ásælni, hitasælinn hitasælni, valdasælinn valdasælni o.fl. Í þessum orðum má líta svo á að nafnorðin séu leidd af lýsingarorðum enda er það uppruni viðskeytisins -ni: -sæk-in > -sæk-in+i > -sæk-ni.

En svo hefur -ni orðið að sjálfstæðu viðskeyti sem hægt er að nota það á önnur orð en þau sem enda á -inn. Sum nafnorð sem hafa -sælni að seinni lið virðast því ekki vera leidd af lýsingarorðum með -sælinn heldur af orðum sem enda á -sæll, svo sem jarðsælni af jarðsæll og sólsælni af sólsæll – allt eru þetta reyndar mjög sjaldgæf orð. Orðmyndunin sigursælni af sigursæll á sér því skýrar fyrirmyndir og engin ástæða til að hafa neitt á móti þessu orði þótt sjaldgæft sé. Vissulega má halda því fram að það sé óþarft vegna þess að fyrir séu þrjú orð sömu merkingar – sigursæld, sigursæla og sigursæli – en það eru auðvitað engin rök gegn orðinu. Aukin fjölbreytni í orðavali auðgar málið en skaðar það ekki.