Innleggshöfundi í „Málspjalli“ í gær fannst „sérkennilegt og óviðeigandi“ að spurningaþáttur á sjónvarpsstöðinni Sýn (áður Stöð 2) héti „Kviss“ og vísbendingar í þættinum væru nefndar hint. Vissulega eru bæði orðin tekin óbreytt úr ensku, quiz og hint, þótt ritháttur annars og framburður beggja sé lagað að íslenskum reglum. Orðið kviss í þessari merkingu er líklega ekki mikið eldra í íslensku en síðan um aldamót, en hint er töluvert eldra. Það er að finna í Slangurorðabókinni frá 1982, skýrt 'óljós ábending, vísbending, vink' og sömuleiðis er þar samstofna sögnin hinta (að) sem er skýrð 'gefa í skyn, vekja grun um'. Bæði orðin eru einnig í síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar en merkt ??, þ.e. 'framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta'.
Sögnin virðist nokkru eldri í málinu en nafnorðið. Elstu dæmi um hana eru í Morgunblaðinu 1972: „Er síðan hintað að því að Loftleiðir séu eins og járnbrautarlest“, „þá var hintað að ýmsu mjög furðulegu“ og „í bréfinu ber hann fram margvíslegar ásakanir […] og hintar að einu og öðru“. Í viðtali í Vísi skömmu síðar vísar þáverandi umsjónarmaður útvarpsþáttarins „Daglegt mál“ til þessara dæma og er greinilega ekki sáttur. Í Skólablaðinu 1973 segir: „þess má geta að forsíða alþýðublaðs var ekki hönnuð erlendis einsog hintað er að í ritdómi.“ Í Stúdentablaðinu 1975 segir: „Hann […] hintaði að hlutum sem erfitt er að sanna.“ Í Helgarpóstinum 1979 segir: „Að sönnu hafði verið hintað og það kvisast út að eitthvað stæði til í herbúðum krata.“
Elsta dæmi sem ég finn um hvorugkynsorðið hint er í Helgarpóstinum 1981: „Hef mín persónulegu hint.“ Í Tímanum 1982 segir: „Við getum gefið ykkur nokkur hint“ og „Bara lítil hint“. Í Þjóðviljanum 1982 segir: „Gefðu mér nú hint.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „sérð öll spilin og fékkst ákveðið hint í inngangsorðunum.“ Í Læknanemanum 1986 segir: „Ekki fengum við nein „hint“.“ Það eru þó ekki nema fáein dæmi um þessi orð, hvort heldur er sögnin eða nafnorðið, á tímarit.is en þeim mun fleiri í Risamálheildinni. Þar eru hátt í fjögur þúsund og fjögur hundruð dæmi um nafnorðið hint, öll nema rúmlega hundrað af samfélagsmiðlum, og um fjögur hundruð dæmi um sögnina hinta, einnig langflest af samfélagsmiðlum.
Þessi orð eru því bæði mjög algeng í óformlegu máli, einkum nafnorðið, og hafa væntanlega verið það undanfarin fjörutíu ár eða svo. Það er rétt að benda á að skýringar Íslenskrar orðabókar og Slangurorðabókarinnar á hint, ‚vísbending, (óljós) ábending‘ eru ófullnægjandi. Eins og enska orðið getur hint í íslensku samhengi einnig merkt 'merki um' eða 'vottur af'. Í blaðinu 2006 segir: „Púðrið gefur húðinni fínlega silkiáferð og hint af silfri.“ Í DV 2009 segir: „þá finnst mér svartur litur, með ljósum grátónum og kannski hint af lit með annað slagið vera málið í sumar.“ Á Bland.is 2006 segir: „Er ég að skynja hint af kaldhæðni þarna?“ Vitanlega er merkingin mjög skyld, en samt ekki alltaf hægt að setja vísbending í staðinn fyrir hint.
Þótt þessi orð séu tekin beint úr ensku, nafnorðið óbreytt en sögnin að viðbættu viðskeytinu -a, er það í sjálfu sér ekki næg ástæða til að amast við þeim að uppfylltum tveimur skilyrðum. Annað er að þau falli að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Augljóslega falla þau ágætlega að beygingakerfinu og koma fyrir í fjölmörgum mismunandi beygingarmyndum. Það er ekki heldur hægt að segja annað en þau falli að hljóðkerfinu – vissulega eru ekki til mörg hvorugkynsorð með -int önnur en hin sjaldgæfu (töku)orð kvint og pint, og ekki aðrar sagnir með -inta en hin sjaldgæfa trinta sér, en fjöldi orða er til með annað sérhljóð á undan -nt(a). Hitt skilyrðið er að orðin útrými ekki þeim orðum sem fyrir eru – það er okkar að sjá til þess.