Posted on

Hvað er snemmt?

Í „Málspjalli“ var í dag spurt um það hvenær ætti að nota snemma og hvenær snemmt. Þegar ég var að undirbúa svar við þessu komst ég að því að bæði orðin eru talin atviksorð, bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók. Sú greining á snemma er óumdeilanleg en öðru máli gegnir um snemmt. Vissulega lítur það út eins og dæmigert atviksorð – endar á -t eins og t.d. samt. En -t getur eins verið hvorugkynsending lýsingarorðs og þegar að er gáð verður ekki betur séð en snemmt hafi oftast setningarstöðu lýsingarorðs. Í stað þess er venjulega hægt að setja dæmigerðar lýsingarorðsmyndir eins og gott og vont, en alls ekki hrein atviksorð eins og vel og illa. Við getum sagt þetta er of gott/vont eins og þetta er of snemmt, en ekki *þetta er of vel/illa.

Eftir stendur samt að snemmt virðist aðeins koma fyrir í þeirri einu mynd en ekki beygjast í kynjum, tölum og föllum eins og lýsingarorð. Í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar segir: „Hvorugkyn lýsingarorða verður oft að atviksorði. Á það þá tíðast við sögnina, en lagar sig á engan hátt eftir fallorðinu. Oftast má í þessum samböndum komast að því, hvort um lýsingarorð eða atviksorð er að ræða, með því að breyta um tölu fallorðsins eða setja orð af öðru kyni í stað þess, sem fyrir er, og athuga, hvort vafaorðið lagar sig eftir fallorðinu eða ekki.“ Björn skýrir þetta með dæmunum „Hann málaði húsið rautt“ og „Hann málaði húsin rauð“ um lýsingarorð, og „Hann lyfti steininum hátt“ og „Hann lyfti steinunum hátt“ um atviksorð.

Erfitt er að beita þessu prófi á snemmt – og þegar að er gáð eru orðabækur raunar ekki á einu máli um greiningu orðsins. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið sagt „an. og adv.“, þ.e. lýsingarorð í hvorugkyni og atviksorð. Í Ordbog over det norrøne prosasprog er snemmt ekki flettiorð – dæmi um það er að finna undir lýsingarorðinu snemmur. Raunar er snemmt eina beygingarmyndin undir því flettiorði fyrir utan tvö dæmi um efsta stigið snemmst sem hefur stöðu atviksorðs í þeim dæmum – og fjögur af sex dæmum um snemmt eru einnig talin atviksorð. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er snemmt ekki heldur flettiorð, heldur aðeins snemmur – og undir því er að finna ýmsar beygingarmyndir, en þó engin dæmi um snemmt.

Nokkur dæmi um aðrar beygingarmyndir lýsingarorðsins en hvorugkyn eintölu má einnig finna á tímarit.is. Í Þjóðólfi 1867 segir: „á Íslandi mundi það þykja snemmr gróðr.“ Í Eir 1899 segir: „Hún stofnar oss öllum í hættur, er haft geta snemman dauða í för með sér.“ Í Heimi 1913 segir: „En fyrir þessa snemmu fótaferð stöku manna, gekk þó fljótar að vekja á bæjunum.“ Í Nýja dagblaðinu 1937 segir: „Hann var dauðþreyttur á snemmri fótaferð kaldra morgna.“ Í Tímanum 1964 segir: „Þaðan flyzt hann á snemmum tamningaraldri vestur í Hreppa í Árnessýslu.“ Í Degi 1984 segir: „því varla að vænta mjög snemmrar blómgunar.“ Í Stúdentablaðinu 2004 segir: „Ég vissi að það væri í það snemmsta að ætla að skoða kanínur í mars.“

Það er ljóst að þótt aðrar myndir af lýsingarorðinu en snemmt hafi alltaf verið sjaldgæfar hafa þær lifað lengi í málinu og eitthvert líf virðist vera í þeim enn, jafnvel í óformlegu máli – a.m.k. eru nokkur dæmi af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Á Hugi.is 2004 segir: „Mér finnst að við ættum að stofna félag gegn of snemmum jólaundirbúningi.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Gladdu svo kallinn með snemmri jólagjöf þegar hann kemur heim úr vinnunni.“ Á Málefnin.com 2008 segir: „Mér finnst að skuggarnir séu frekar í snemmri kantinum, 8:00 eða 9:00 frekar en seinna um morguninn.“ Það kæmi því til greina að hafa lýsingarorðið snemmur í orðabókum, og a.m.k. væri eðlilegt að greina snemmt sem lýsingarorð fremur en atviksorð.