Posted on

Frábær ráðstefna um íslenskukennslu

Í gær og dag var ég á ráðstefnunni „Samfélagið er lykillinn að íslensku“ í Háskólanum á Akureyri en þar var fjallað um kennslu íslensku sem annars máls. Ráðstefnan var mjög vel sótt af fólki úr háskólum, framhaldsskólum, grunnskólum og einkaskólum auk þess sem þarna var áhugafólk úr ýmsum áttum, eins og ég. Þetta var stórfróðleg og bráðskemmtileg ráðstefna þar sem glögglega kom í ljós hversu mikil gróska er á þessu sviði og hvað þau sem vinna á sviðinu eru hugmyndarík og dugleg við að prófa og þróa nýjar aðferðir. Enda er það eins gott – fátt er mikilvægara fyrir framtíð íslenskrar tungu og íslensks samfélags en að okkur takist að kenna þeim sem setjast hér að íslensku og rótfesta þau þannig í íslensku samfélagi.

Ráðstefnunni lauk með ávarpi menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Það vakti athygli og olli vonbrigðum að í ávarpi sínu gaf hann engar vonir um að ríkisstjórnin hygðist efla kennslu íslensku sem annars máls og minntist ekkert á þann niðurskurð til íslenskukennslu innflytjenda sem áformaður er í fjárlagafrumvarpinu og ég hef skrifað um. Spurður um þennan niðurskurð benti ráðherrann á að hann væri ekki í sínu ráðuneyti en þar væru hins vegar í gangi ýmis ný verkefni á þessu sviði – sem hann nefndi þó engin dæmi um. Svör ráðherrans skutu því miður frekari stoðum undir þá tilfinningu mína að stjórnvöld átti sig alls ekki á því hvað er í húfi fyrir íslenskuna og samfélagið ef við gerum ekki stórátak í íslenskukennslu innflytjenda. Núna.