Í skýrslu OECD um málefni innflytjenda á Íslandi sem birt var fyrir ári kom fram að hlutfall innflytjenda í ríkjum OECD sem telja sig hafa sæmilega færni í tungumáli landsins þar sem þeir búa er hvergi lægra en á Íslandi – innan við 20%, en tæp 45% í Finnlandi, tæp 50% í Danmörku, um 55% í Noregi og um 60% í Svíþjóð, en meðaltalið í ríkjum OECD er tæp 60%. Þetta er vitaskuld óviðunandi með öllu en endurspeglar það að fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls (miðað við fjölda innflytjenda) eru ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til kennslu í þjóðtungum sínum. Í skýrslunni er hvatt til þess að opinberar fjárveitingar til íslenskukennslu innflytjenda verði stórhækkaðar og umfang kennslunnar aukið, sem og gæði.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2024 segir m.a.: „Ríkisstjórnin mun hlúa að íslenskri tungu og menningararfi þjóðarinnar [...]“, „Lögð verður áhersla á íslenskukennslu […].“ „Styðja þarf skólakerfið til að […] tryggja inngildingu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli […]“ og „[I]nnflytjendur fái tækifæri til að læra íslensku og taka virkan þátt í samfélaginu.“ Þess hefði mátt vænta að þessara markmiða sæi stað í fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og aukið væri myndarlega við fé til kennslu í íslensku sem öðru máli, í samræmi við tillögur í áðurnefndri skýrslu OECD. En því er ekki að heilsa – þvert á móti. Samkvæmt frumvarpinu mun fé til kennslunnar minnka verulega í stað þess að aukast.
Þetta kemur skýrast fram í lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“. Undir þeim lið sagði í fjárlögum þessa árs: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 250 m.kr. til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga.“ En í nýja frumvarpinu segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 250 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður.“ Ekki kemur fram hver þessi tímabundnu verkefni séu en augljóst er að það er áðurnefnd aukning – liðurinn „Íslenskukennsla fyrir útlendinga“ lækkar úr 564,4 milljónum króna í 360,7 milljónir króna. Þótt fjárveitingin á þessu ári hafi verið „tímabundin“ er verkefnið það vitaskuld ekki – útlendingum á Íslandi hefur ekki fækkað og það er ekki búið að kenna þeim íslensku.
Undir lið 29.70, „Málefni innflytjenda og flóttamanna“ segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 150 m.kr. Um er að ræða tímabundna fjárheimild vegna aðgerðaáætlunar um inngildingu innflytjenda og flóttamanna sem fellur nú niður.“ Þegar þessar 150 milljónir komu inn í fjárlögum þessa árs var það til að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun fyrri ríkisstjórnar um inngildingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag. Vitanlega gerist slíkt ekki á einu ári og þess vegna fráleitt að fjárveitingin haldist ekki áfram. Vissulega tók þessi aðgerðaáætlun til margra þátta og óvíst að mikið af því fé sem ætlað var til hennar hafi farið beinlínis í íslenskukennslu, en hvers kyns aðrar aðgerðir til inngildingar styrkja líka íslenskuna.
Nú eru rúmlega áttatíu þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi og hefur fjölgað um þrjátíu þúsund á fimm árum og um fimmtán þúsund síðustu tvö og hálft ár. Íslenskukennsla og inngilding þessa fjölda er ekkert áhlaupaverk sem hægt er að afgreiða á einu ári eins og öllum sem hafa snefil af þekkingu og skilningi á tungumálanámi hlýtur að vera ljóst. Að læra nýtt tungumál er langtímaverkefni, ekki síst fyrir fólk sem er í fullri vinnu eins og þorri innflytjenda er. Þess vegna er dapurleg skammsýni hjá stjórnvöldum að stórlækka framlög til íslenskukennslu og inngildingar og furðulegt skilningsleysi að halda að tímabundin framlög til eins árs hafi leyst vandann. Ég hef miklar áhyggjur af því að stjórnmálafólk átti sig ekki á þessu.
Það er nokkuð ljóst að fólki með annað móðurmál en íslensku mun enn fara fjölgandi á næstu áratugum. Atvinnurekendur kalla eftir meira vinnuafli – fjórðungur fólks á vinnumarkaði er nú af erlendum uppruna og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verði hlutfallið allt að helmingur. Þótt þessir innflytjendur eigi fæstir ensku að móðurmáli er enskan samskiptamál milli okkar og þeirra, og einnig innbyrðis milli fólks af mismunandi þjóðernum. Hlutfall enskunotkunar á móti íslenskunotkun hlýtur því að fara hækkandi og ef ekkert verður að gert er alls ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í atvinnulífi landsins. Það væri þróun sem erfitt yrði að snúa við.
Íslenskukennsla innflytjenda er verkefni sem við höfum lengi vanrækt. Að sumu leyti er það skiljanlegt – fjölgun innflytjenda hefur verið svo ör að kerfið var gersamlega óviðbúið og vanbúið til að takast á við hana, bæði á þessu sviði og öðrum. Það er veruleg hætta á að hér verði til – og eru kannski þegar orðin til – heil samfélög þar sem íslenska er lítið sem ekkert notuð, þar sem fólk er fast í láglaunastörfum, og þar sem brottfall barna úr skólum er mjög hátt. Við það bætist að fólk sem ekki hefur íslensku á valdi sínu á þess lítinn kost að taka þátt í lýðræðislegri samfélagsumræðu og kosningaþátttaka þess er lítil. Það ætti ekki að þurfa að benda á eða útskýra hversu alvarlegt það er fyrir íslenskt samfélag og lýðræði í landinu.
En því lengur sem við bíðum með að takast á við verkefnið af alvöru, þeim mun óviðráðanlegra verður það – og því alvarlegri verða afleiðingarnar, bæði fyrir fólkið sjálft, íslenskt samfélag, og íslenska tungu. Við þurfum að verja miklu meira fé til þess að gera íslenskuna að sameign allra sem hér búa þannig að hún geti áfram verið burðarás samfélagsins. Ég treysti því að í meðförum Alþingis verði sú aðför að íslenskukennslu sem felst í fjárlagafrumvarpinu stöðvuð og í stað áformaðs niðurskurðar verði fjárveitingar auknar myndarlega þannig að við förum að greiða inn á þá innviðaskuld við íslenskuna sem hefur myndast á undanförnum árum og er ekki síður alvarleg en innviðaskuldir á öðrum sviðum. Að öðrum kosti erum við á hættulegri braut.