Posted on

Svefniherbergi, svefnerbergi, svefnibergi

Í „Málvöndunarþættinum“ var nýlega spurt um orðmyndina svefniherbergi sem fyrirspyrjandi sagðist oft heyra fólk segja, og velti fyrir sér hvernig stæði á þessu auka-i inni í miðju orði. Í umræðum var nefnt að þessi mynd hefði verið algeng „í gamla daga“. Ég finn nokkuð á annan tug dæma um hana á tímarit.is fram að síðustu aldamótum, það elsta frá 1957 (flest dæmin sem koma þar upp í leit eru skönnunarvillur) en eftir það verður hún mjög algeng. Að vísu þarf að taka tíðninni á tímarit.is með fyrirvara vegna þess að þetta orð kemur langoftast fyrir í fasteignaauglýsingum sem eru endurbirtar margsinnis. En myndin er þó ekki bundin við auglýsingar – um 180 dæmi eru um hana í Risamálheildinni, nær öll af samfélagsmiðlum.

En einnig er slæðingur af dæmum um svefnerbergi, án h, á tímarit.is – að vísu langflest úr margendurbirtum fasteignaauglýsingum frá fyrsta áratug þessarar aldar. Í Risamálheildinni er á annan tug dæma af samfélagsmiðlum um þessa mynd. Bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni er einnig að finna fáein dæmi um myndina svefnbergi, og í Risamálheildinni eru einnig nokkur dæmi af Bland.is um svefnibergi, þar á meðal tvö þar sem augljóslega er verið að vekja athygli á þessari mynd – annað frá 2009, „Hahahaha svefnibergi er best!“ og hitt frá 2013, „og mamma segir svefnibergi þegar hún talar um svefnherbergi“. Í umræðu í „Málvöndunarþættinum“ sagði einn þátttakandi: „Annars heyri ég fyrir mér svefnibergi þegar ég hugsa tilbaka.“

Í umræðunni var bent á að tengihljóðin eða tengistafirnir a, i, u eru oft notuð í samsettum orðum til að brjóta upp samhljóðaklasa – eins og vissulega er í svefnherbergi. Það er alveg hugsanlegt að myndin svefniherbergi hafi orðið til við slíkt innskot, en mér finnst þetta samt ekki dæmigert orð fyrir þá orðmyndun. Í samsettum orðum þar sem seinni liður hefst á h fellur það hljóð nefnilega iðulega brott í framburði – venjulegur framburður á eldhús er t.d. eldús. Sama gildir um svefnherbergi – algengur framburður á því er svefnerbergi. En þegar h fellur brott er ekki lengur neinn samhljóðaklasi sem þarf að einfalda og því eru ekki neinar forsendur fyrir innskotshljóði. Það eru líka engin dæmi um t.d. eldahús eða eitthvað slíkt.

Þótt meginskilin í orðinu séu í svefn og herbergi er það ævinlega borið fram með aukaáherslu á -bergi, en annað atkvæðið, -her-, er áherslulaust enda þótt það sé fyrsta atkvæði í seinni lið orðsins. Vegna þessa áhersluleysis verður framburður þess oft óskýr – h fellur iðulega brott eins og áður segir, og r jafnvel líka. Þá er eingöngu e eftir af orðhlutanum -her- og e í áhersluleysi nálgast oft i enda er i dæmigert áherslulaust sérhljóð en e ekki. Framburðurinn verður þá oft eitthvað í líkingu við svefnibergi þótt sérhljóðið sé sennilega sjaldnast skýrt i heldur einhvers konar óákveðið sérhljóð (táknað [ə] í alþjóðlega hljóðritunarkerfinu). En vegna þess að við erum svo bundin við stafsetninguna tökum við sennilega sjaldnast eftir þessu.

Myndirnar svefnerbergi og svefnibergi eiga sér sem sagt eðlilegar skýringar. Myndin svefnbergi endurspeglar hugsanlega framburð sem er svo hraður eða óskýr að liðurinn -her- fellur (nær) alveg brott. Þá er eftir myndin sem byrjað var á – svefniherbergi. Þar gæti vissulega verið um að ræða innskot tengihljóðs, en mér finnst líka hugsanlegt að þetta sé einhvers konar blendingsmynd. Fólk heyrir svefnibergi sem er algengur framburður eins og áður segir (og e.t.v. sá algengasti í óformlegu tali) og telur því að fyrri hluti orðsins eigi að vera svefni- en þekkir hins vegar úr ritmynd orðsins að þar á að vera -her- og skrifar þess vegna svefniherbergi sem er þá einhvers konar sambland af framburðarmynd og ritmynd. En þetta er bara tilgáta.