Fyrir nokkrum dögum fór í loftið nýr fjölmiðill, TV1 Magazine, sem Þorsteinn J. Vilhjálmsson stendur að. Í viðtali við Þorstein á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að hann telur „mögulegt að nafn miðilsins komi einhverjum spánskt fyrir sjónir“ en slær það út af borðinu: „„Þetta er íslenskur fjölmiðill en um leið hugsa ég að við séum í samkeppni við aðra fjölmiðla í heiminum,“ segir Þorsteinn og nefnir Politiken í Danmörku, Times á Englandi eða New York Times í Norður-Ameríku.“ Það er metnaðarfullt en í góðu lagi að telja sig vera í samkeppni við þessa miðla en vegna þess að efni miðilsins er allt á íslensku hlýtur sú samkeppni eingöngu að vera um íslenska fjölmiðlaneytendur og því óþarfi að höfða til annarra með ensku nafni.
Þorsteinn bætir við: „Mér finnst TV1 Magazine alveg jafn gott nafn og Eimreiðin eða Ísafold en það er efnið sjálft sem skiptir öllu máli.“ Það er reyndar ekki bara nafnið sem er á ensku – valmöguleikarnir á síðunni eru nefnilega „TV“, „Radio“, „Magazine“, og svo af einhverjum ástæðum ekki „About us“ heldur „Um okkur“ sem er eiginlega dálítið stílbrot. En það er reyndar ekki rétt að efnið skipti öllu máli og ég hef enga trú á því að Þorsteinn meini það bókstaflega. Nafnið skiptir auðvitað heilmiklu máli líka – það er vörumerki miðilsins og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að það er valið, einhver hugsun á bak við það. Og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að valið er að hafa heiti íslensks fjölmiðils á ensku en ekki íslensku.
Það liggur auðvitað beint við að álykta að ástæðan sé sú sama og oftast er fyrir enskum heitum á íslenskum fyrirbærum, hvort sem það eru veitingastaðir, viðburðir, fjölmiðlar eða eitthvað annað – sem sé sú að íslenskan er hallærisleg, gamaldags og ósöluvænleg að mati þeirra sem velja heitin. Til að eitthvað veki athygli, til að það höfði til nútímafólks, og síðast en ekki síst til að það seljist, þarf það að heita ensku nafni – eða hvað? Er þetta kannski bara tilfinning þeirra sem velja nöfnin sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum? Ég veit ekki til þess að afstaða almennra málnotenda og neytenda til íslenskra og enskra heita hafi verið könnuð. Er það tilfellið að fólk velji fremur vöru eða afþreyingu sem heitir ensku nafni – eða er það bara ímyndun?
En hvort sem um er að ræða ímyndun eða ekki er ljóst að það vinnur gegn íslenskunni að gefa fyrirbærum ensk heiti án þess að gildar ástæður séu fyrir því. Í þessu tilviki er ekki einu sinni hægt að bera fyrir sig þá skýringu sem veitingastaðir og viðburðahaldarar nota oft, að verið sé að höfða til ferðafólks og innflytjenda sem ekki skilji íslensku. Ég veit að Þorsteinn J. Vilhjálmsson er góður fjölmiðlamaður og mér líst vel á þennan miðil, en þeim mun dapurlegra finnst mér nafn hans. Ég veit að mörgum finnst það smámunasemi að amast við enskum heitum á ýmsum íslenskum fyrirbærum og telja þau ekki hafa nein áhrif á stöðu og framtíð íslenskunnar – ekki frekar en ensk skilti, auglýsingar, merkingar, matseðlar og annað slíkt. En það er rangt.
Eins og ég hef sagt ótal sinnum hefur þetta miklu meiri áhrif á málið og framtíð þess en við áttum okkur á í fljótu bragði. Þau áhrif eru ekki bein nema að takmörkuðu leyti en óbeinu áhrifin á (ómeðvituð) viðhorf okkar og hugmyndir eru miklu meiri og lúmskari. Þau koma bæði fram í því að óþörf enskunotkun skapar þá ímynd íslenskunnar í huga okkar að hún henti ekki, eigi ekki við, eða dugi ekki við tilteknar aðstæður, og einnig í því að hún gerir okkur ónæm fyrir enskunni, lætur okkur hætta að taka eftir henni og finnast eðlilegt að hún sé notuð í stað íslensku við ýmsar aðstæður og ryður henni þannig braut inn á sífellt fleiri svið. Slík þróun dregur smátt og smátt úr viðnámsþrótti íslenskunnar og veikir hana. Það endar ekki vel.