Posted on

Brotin enska

Áhrif ensku á íslensku fara vaxandi og koma fram á ýmsan hátt. Stundum birtast þau í því að enska kemur beinlínis í stað íslensku, svo sem á skiltum, í auglýsingum, í heitum staða og viðburða o.s.frv., eða jafnvel sem vinnu- og samskiptatungumál. Einnig er mikið um að ensk orð séu tekin inn í málið, stundum alveg óbreytt með enskum framburði og stafsetningu en stundum meira og minna aðlöguð íslenskum framburði, beygingakerfi og rithætti. Hvort tveggja er augljóst og yfirleitt auðvelt að varast – ef við viljum. En lúmskustu áhrifin felast í því þegar ensk orðasambönd eru þýdd orðrétt á íslensku, með íslenskum orðum – bara öðrum orðum en venja er að nota í viðkomandi merkingu. Þetta getur verið býsna erfitt að varast.

Eitt slíkt dæmi er sambandið brotin enska sem nú er stundum notað um það sem heitir broken English á ensku. Elsta dæmi sem ég finn um það er frá 1905, „„Hvað gengur að þér, drengur minn,“ sagði ég á brotinni ensku“ í tímaritinu Freyju sem var gefið út í Kanada. En síðan finn ég ekki dæmi fyrr en í Alþýðublaðinu 1991: „„Hér verður bylting“, tautaði þjónninn á brotinni ensku.“ Í Degi 2000 segir: „Það tók mig dálítinn tíma að finna hvar hann ætti að liggja, en ákvað á endanum að hann ætti að tala brotna ensku.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Ég minnist þess jafnframt að hafa sem lítill drengur gengið um í garðinum heima og talað brotna ensku upphátt.“ Dæmum fer svo fjölgandi eftir aldamótin, og í Risamálheildinni eru 25 dæmi um sambandið.

Í „Sandkorni“ DV 2008 segir: „Í vikunni gaf Bjartur út bókina Ludmila's Broken English eftir DBC Pierre. […] [Í]slenskur titill bókarinnar er breytilegur eftir því hvort skoðuð er kápa bókarinnar, hlífðarkápa eða títilsíða. Hann er ýmist Brotin enska Lúdmílu eða Bjöguð enska Lúdmílu.“ Þetta skýrist í pistli Þrastar Helgasonar í Lesbók Morgunblaðsins skömmu síðar: „Í grein um bókina Bjöguð enska Lúdmílu eftir DBC Pierre í Lesbók 3. maí sl. er hún sögð bera titilinn Brotin enska Lúdmílu. Þessi titill er ekki frá þýðandanum Árna Óskarssyni kominn, heldur varð til vegna mistaka við útgáfu bókarinnar. Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en bókin hafði verið prentuð og brá útgáfan þá á það ráð að prenta lausa kápu með hinum rétta titli.“

Þarna rekst á hefðbundið og enskt orðalag og greinilegt að máltilfinning þeirra sem komu að útgáfu bókarinnar hefur verið mismunandi. Orðalagið bjöguð enska hefur verið algengt síðan á nítjándu öld – í Lögbergi 1888 segir: „Við töluðum dálítið saman, því að hann gat talað bjagaða ensku.“ Alls er hátt á sjötta hundrað dæma um bjagaða ensku á tímarit.is, og tæp þrjú hundruð í Risamálheildinni. Á tímarit.is er líka fjöldi dæma um bjagaða íslensku, bjagaða dönsku, bjagaða frönsku, bjagaða þýsku o.fl., en engin dæmi um brotinn með öðrum tungumálaheitum en ensku, fyrir utan fjögur um brotna íslensku. Það er því ljóst að bjöguð enska er enn hið venjulega orðalag um þessa merkingu þrátt fyrir að sambandið brotin enska sæki á.

Hliðstæðum dæmum um beinþýdd ensk orðasambönd fer ört fjölgandi og ástæðulaust að tína til dæmi hér. Það má vissulega segja að þetta sé meinlaust að því leyti að orðin eru auðvitað íslensk, og sannarlega hafa beinþýdd erlend sambönd streymt inn í málið á öllum tímum, áður fyrst og fremst úr dönsku, og eru miklu fleiri en við áttum okkur á. Ég ætla ekki að leggja til að fólk forðist að tala um brotna ensku – það samband er komið inn í málið og tæpast á útleið. En mér finnst samt skipta máli að við vitum af því að það er hægt – og venja – að orða þetta öðruvísi. Aðalástæðan fyrir því að ég geld varhug við straumi enskættaðra orðasambanda inn í málið er ekki samböndin sjálf, heldur að þau benda til að fólk þekki ekki hefðbundið orðalag.