Fjölgun fólks af erlendum uppruna undanfarinn áratug á sér ekki fordæmi. Fyrir áratug voru erlendir ríkisborgarar um 10% íbúa en eru nú um 20%, og um fjórðungur fólks á vinnumarkaði er af erlendum uppruna. Í skýrslu OECD um málefni innflytjenda á Íslandi sem birt var fyrir ári kom fram að hlutfall innflytjenda í ríkjum OECD sem telja sig hafa sæmilega færni í tungumáli landsins þar sem þeir búa er hvergi lægra en á Íslandi. Hér er það innan við 20%, en á bilinu 45-60% annars staðar á Norðurlöndum – meðaltalið í ríkjum OECD er tæp 60%. Þetta endurspeglar það að fjárveitingar á hvern innflytjanda til kennslu íslensku sem annars máls eru ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til kennslu í þjóðtungum sínum.
Innflytjendur hafa átt stóran þátt í hagvextinum undanfarin ár og halda í raun uppi heilum atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu og byggingariðnaði, og þeim fer einnig ört fjölgandi í heilbrigðiskerfinu. En margir þeirra búa yfir fjölbreyttri menntun og þekkingu sem nýtist ekki sem skyldi, ekki síst vegna takmarkaðrar íslenskukunnáttu þeirra. Þeir festast því iðulega í láglaunastörfum þar sem vinnutími er langur og þeir hafa fyrst og fremst samskipti við aðra innflytjendur og fá því lítil tækifæri til að læra íslensku. Skortur á íslenskukunnáttu hamlar einnig þátttöku innflytjenda í lýðræðislegri umræðu og kosningaþátttaka þeirra er mun minni en innfæddra. Börn innflytjenda eru enn fremur í meiri hættu að falla brott úr skólum.
En takmörkuð íslenskukunnátta innflytjenda bitnar ekki einungis á þeim sjálfum, heldur hefur einnig margvísleg áhrif á innfædda Íslendinga og samfélagið í heild. Fjöldi innflytjenda í ýmiss konar þjónustustörfum, svo sem við afgreiðslu í veitingahúsum og verslunum, veldur því að víða getur verið erfitt að fá þjónustu á íslensku. Við þurfum á þessu fólki að halda, og það hefur verið ráðið til starfa án þess að gerðar væru kröfur um íslenskukunnáttu, en skiljanlega veldur þetta stundum pirringi hjá viðskiptavinum sem telja sig – með réttu – eiga að geta fengið þjónustu á þjóðtungu og opinberu tungumáli landsins. Þetta er óheppilegt vegna þess að hætta er á að pirringurinn bitni á starfsfólkinu og leiði jafnvel til útlendingaandúðar þegar verst lætur.
Þá eru ónefnd þau áhrif sem það hefur á íslenskuna og framtíð hennar að umtalsverður hluti íbúa landsins hefur hana ekki á valdi sínu. Nú þegar er fjórðungur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna eins og áður segir, og því hefur verið spáð að um miðja öldina gæti hlutfallið verið orðið helmingur. Fæstir innflytjendur eiga ensku að móðurmáli en reynslan sýnir að þeir læra (ófullkomna) ensku eftir að þeir koma til landsins og nota hana sem samskiptamál við innfædda, og einnig í samskiptum við aðra innflytjendur af ólíku þjóðerni. Ef bjöguð enska dugir til daglegra nota er lítil hvatning til að læra íslensku. Hlutverk hennar sem samskiptamáls verður því sífellt minna og ef ekkert er að gert er hætta á að hún verði undir í atvinnulífinu.
Verði ekkert gert til að auka íslenskukunnáttu innflytjenda stefnir því í óefni – fyrir fólkið sjálft, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna. Það eru allar líkur á að innflytjendum haldi áfram að fjölga, og jafnvel þótt fjölgunin stöðvaðist er fæst af því fólki sem hingað er komið á leið burt. Meginhluti þess stóra hóps hefur lítið vald á íslensku og eftir því sem fólkið dvelur hér lengur án þess að læra málið minnka líkurnar á að það geri það nokkurn tíma. En jafnframt aukast líkurnar á að hér verði til einangruð samfélög innflytjenda þar sem íslenska er lítið notuð og í raun óþörf – samfélög sem einkennast af lágum launum og lítilli menntun. Við höfum ýmis dæmi frá grannlöndunum sem sýna okkur hvílík óheillaþróun slíkt væri fyrir íslenskt samfélag.
Það er þess vegna allra hagur að gert verði átak í kennslu íslensku sem annars máls. Fólkið sjálft verður hreyfanlegra á vinnumarkaði og hefur möguleika á að vinna sig upp í starfi, á auðveldara með að liðsinna börnum sínum við nám, og getur tekið meiri þátt í hvers kyns félagsstarfi og lýðræðislegri umræðu. Atvinnulífið fær hæfara starfsfólk sem á auðveldara með margs konar samskipti og nýtir betur kunnáttu sína og þekkingu, og verður þar með ánægðara í starfi. Innfæddir Íslendingar munu geta notað móðurmálið við margvíslegar aðstæður þar sem nú verður iðulega að nota ensku. Síðast en ekki síst blómstrar íslenskan vegna þess að notendum hennar fjölgar og notkunarsvið hennar stækkar í stað þess að skreppa saman.