Posted on

Auglýsing á ensku um Jónasarverðlaun

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sem „eru veitt einstaklingi sem hefur með eftirtektarverðum hætti unnið íslenskri tungu gagn eða glætt hana nýju lífi, til dæmis með skáldskap, fræðistörfum, kennslu, þýðingum eða á annan hátt stuðlað að framgangi íslenskunnar, eflingu hennar, miðlun eða nýsköpun“ sem og til viðurkenningar íslenskrar tungu sem „skal veita hópi, félagi, verkefni, samtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa á einn eða annan hátt sýnt íslenskri tungu ræktarsemi, vakið athygli á henni eða sýnt henni stuðning í verki“. Það er auðvitað ánægjulegt að almenningi gefist þannig kostur á að tilnefna verðuga verðlauna- og viðurkenningarhafa.

Það er bara einn hængur á þessu. Á tilnefningarforminu segir: „When you submit this form, it will not automatically collect your details like name and email address unless you provide it yourself“ og í reitum sem fylla þarf út stendur alls staðar „Enter your answer“. Á eftir lýsingu á reitunum er stjarna og skýringin á henni er „Required“. Þegar búið er að fylla formið út er ýtt á hnappinn „Submit“. Neðst á forminu eru svo fimm línur á ensku frá Microsoft. Umgjörðin er sem sé að verulegu leyti á ensku, sem verður að teljast býsna neyðarlegt og raunar fullkomlega ótækt miðað við tilefnið. Ef einhvers staðar er ástæða til að nota eingöngu íslensku og forðast ensku hlýtur það að vera í auglýsingu um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

Það er svo sem ljóst að þarna er verið að nota tilbúið form frá Microsoft sem ég veit ekki hvort hægt er að þýða á íslensku. En jafnvel þótt svo sé ekki er þetta algerlega óviðunandi og óboðlegt. Ef ekki er hægt að losna við enskuna þarna á að finna eða útbúa annað form sem er á íslensku, eða þá óska einfaldlega eftir tilnefningum í tölvupósti. Engin nauður rekur ráðuneytið til að nota þetta form og óskiljanlegt að starfsfólk ráðuneytisins skuli ekki hafa áttað sig á því hversu óviðeigandi þetta er. En svona hugsunarleysi sést því miður æ oftar – fólk annaðhvort tekur ekki eftir því að enskan er alls staðar eða tekur því sem sjálfsögðum hlut, jafnvel í auglýsingu um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þessu verður að breyta ef íslenskan á að lifa.

En fleira má raunar finna að þessari auglýsingu. Yfirskrift hennar er „Tilnefning til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningu íslenskrar tungu“. Þarna hlýtur nafnorðið viðurkenning að stjórnast af forsetningunni til og þar með eiga að vera í eignarfalli, en hefðbundið eignarfall þess er viðurkenningar – þótt myndinni viðurkenningu bregði vissulega oft fyrir í eignarfalli er hún ekki viðurkennd. Í lið 2 á forminu stendur „stofnannir“ með tvírituðu nn þar sem aðeins eitt n á að vera. Auk þess segir í forminu „tillaga að tilnefningu“ þar sem eðlilegt væri að segja bara tilnefning – tilnefningin er í eðli sínu tillaga og „tillaga að tilnefningu“ því óþarfa tvítekning. Auglýsing um Jónasarverðlaun þarf að vera vandaðri.