Í grein í DV staldraði ég við setninguna „Bankahrunið batt enda á skammvinna setu Geirs H. Haarde á stóli forsætisráðherra, en ég hygg að sagan verði honum vilhöll“. Í mínu máli hefur lýsingarorðið vilhallur merkinguna 'hlutdrægur' eins og það er skýrt í Íslenskri orðabók, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'partisk'. Það er líka upphafleg merking orðsins eins og fram kemur í dæmum úr fornu máli. Í Eymundar þætti í Flateyjarbók segir t.d.: „grunar mig að liðsmenn yðrir muni vilhallt sagt hafa og eigi væri enn sannindi vituð þessa máls.“ En ég er nokkuð viss um að merkingin í umræddri tilvitnun átti ekki að vera sú að höfundur teldi að dómur sögunnar um Geir yrði hlutdrægur honum í vil.
Það sem höfundur vill væntanlega koma á framfæri er að hann telur að Geir muni fá góðan dóm í sögunni. Skýring Íslenskrar nútímamálsorðabókar, 'hlynntur e-u, hallur undir e-ð', er nær þessari merkingu en hlutdrægur en þó tæpast nógu hlutlaus. Orðið virðist sem sé hafa breytt um merkingu á seinni árum, í máli sumra a.m.k., og merkja ekki lengur 'hlutdrægur' heldur 'hlynntur, vinveittur, hagstæður' eða eitthvað slíkt. Þessi breyting virðist hafa verið í gangi nokkuð lengi, jafnvel síðan á nítjándu öld, en erfitt er að skoða aldur hennar og útbreiðslu í textum því að oft geta báðar merkingar átt við. Þegar orðið er notað án þess að nafnorð eða fornafn í þágufalli fylgi með (vilhallur einhverjum) er þó ljóst að merkingin er 'hlutdrægur'.
Þannig segir t.d. í Iðunni 1887: „Jæja, þar sérðu, hvort það er við lambið að leika sér, við slægan mann og vilhallan dómara.“ Í Vísi 1939 segir: „Það eitt nægir heldur ekki, að blöðin sjálf séu vilhöll í fréttaflutningi sínum.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Líklega hefur dómnefndin verið vilhöll, enda var vitað fyrir að hún vildi ekki Sigurð.“ En í Nýjum félagsritum 1846 segir: „Málalok í verzlunarmálinu voru svo góð og vilhöll landsmönnum, að þeir mega með öllum rétti fagna þeim.“ Hér merkir vilhöll eiginlega 'hagstæð' eða eitthvað slíkt. Í Skírni 1875 segir: „Frakkar leggja sig sem mest í líma við að gera Rússa sjer vilhalla.“ Hér merkir vilhalla væntanlega 'hliðholla' – hugsanlega líka 'hlutdræga' en það þarf þó ekki að vera.
Ekki er hægt að fjalla um orðið vilhallur nema skoða það líka með neitunarforskeyti, óvilhallur – sem er reyndar margfalt algengara orð. Það er skýrt 'óhlutdrægur' í Íslenskri orðabók og 'sem ekki lætur stjórnast af samúð eða fjandskap við annan aðila í deilu, óhlutdrægur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Búast mætti við að merking þess orðs breyttist á svipaðan hátt, þannig að það færi að merkja 'óvinveittur, óhagstæður' eða eitthvað slíkt. En ekki fer mikið fyrir því þótt finna megi nýleg dæmi. Í Kjarnanum 2021 segir: Það má nefnilega segja að forgangsröðun stjórnvalda á Íslandi hafi verið fremur óvilhöll ungu fólki.“ Í ræðu á Alþingi 2012 segir: „Enginn getur haldið því fram að forseti ASÍ sé sérstaklega óvilhallur þessari ríkisstjórn.“
En eins og með vilhallur er ekki alltaf auðvelt að greina nákvæmlega hvaða merkingu þau sem nota óvilhallur leggja í orðið. Gott dæmi um það má finna í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 þar sem Jón G. Friðjónsson vitnar í setninguna „Þegar við bættist óvilhöll dómgæsla þá var á brattann að sækja“ í íþróttafrétt í Morgunblaðinu sama ár og segir: „Hér virðist lo. óvilhallur notað í merkingunni 'hlutdrægur', þ.e. í þveröfugri merkingu við það sem við eigum að venjast. Trúlega er það forskeytið ó- sem veldur þessu klúðri.“ Þetta kann að vera rétt, en ég held samt frekar að merkingin sé þarna 'óvinveitt, óhagstæð' – þótt vitanlega megi til sanns vegar færa að dómgæsla sem er óvinveitt eða óhagstæð sé um leið hlutdræg.
Við skoðun á dæmum um vilhallur rakst ég á annað mjög svipað orð – (ó)vilhollur. Elsta dæmi um það er í Nýjum félagsritum 1855: „þókti mér hann bera bezt skyn á, og vera vilhollastr máli voru og bókagjörð á næst undanförnum öldum.“ Augljóst virðist að þetta er afbrigði af vilhallur og hefur lifað lengi við hlið þess og gerir enn – alls eru rúm sjötíu dæmi um orðið á tímarit.is og um fimmtíu í Risamálheildinni. Það er væntanlega orðið til fyrir áhrif frá lýsingarorðinu hliðhollur og hefur oftast svipaða merkingu þótt merkingunni 'hlutdrægur' bregði einnig fyrir. Það má halda því fram að í þessari merkingu sé það ekki síður gagnsætt en vilhallur og í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að viðurkenna það sem gott og gilt orð frekar en misskilning.
En svo að aftur sé komið að orðinu vilhallur verður ekki betur séð en báðar merkingarnar, 'hlutdrægur' og 'hlynntur, vinveittur, hagstæður', séu algengar í nútímamáli en eins og áður segir er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli enda oft um huglægt mat að ræða – það sem sumum finnst augljós hlutdrægni getur öðrum fundist málefnalegur stuðningur við annan aðilann. Vegna þess hve mörkin eru óljós er uppkoma nýrri merkingarinnar mjög skiljanleg – orðið vilhallur má líka hugsa sér að merki 'hallast í vil' og ekkert sem segir að eitthvað sé óeðlilegt við það. Þótt merkingin 'hlutdrægur' sé eldri er hin merkingin svo gömul og útbreidd að engin leið er að kalla hana ranga. En þessi tvíræðni orðsins getur vissulega verið óheppileg.

+354-861-6417
eirikurr