Posted on

Mig brast kjark – eða mér brast kjarkur

Ég var spurður hvaða frumlagsfall ætti að nota með sögninni þverra – á að nota nefnifall og segja kjarkurinn þvarr eða þolfall og segja kjarkinn þvarr? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin aðeins sýnd með nefnifallsfrumlagi en í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þverra getur verið notuð ópersónulega og stendur þá með henni frumlag í þolfalli. Mig þverr kraft. Yfirleitt er þó sögnin notuð persónulega. Kraftarnir þurru. Kraftarnir hafa þorrið.“ Þarna er því nefnifall ef sögnin er áhrifslaus (án andlags) en þolfallsfrumlag með andlagi. Í Íslenskri orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru þessar tvær setningagerðir nefndar, en einnig sú þriðja – dagsbirtuna þvarr þar sem frumlagið er í þolfalli þrátt fyrir að sögnin sé án andlags.

Málfarsbankanum og Íslenskri orðabók ber saman um að sé sögnin áhrifssögn standi bæði frumlag og andlag í þolfalli – mig þverr kraft, manninn þvarr kjark. En í Íslenskri orðabók er gert ráð fyrir að andlagið geti líka verið í nefnifalli – manninn þvarr kjarkur. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru sömu setningagerðir nefndar, og auk þess dæmi um þágufallsfrumlag. Þar eru nefnd dæmin gestina þvarr mátt og henni þvarr allur máttur þar sem þolfallsandlag fylgir þolfallsfrumlagi en nefnifallsandlag fylgir þágufallsfrumlagi. Það er þekkt mynstur hjá sögnum þar sem frumlagið hvarflar milli þolfalls og þágufalls – þannig er t.d. venjulega sagt mig brast kjark en hins vegar mér brast kjarkur, en yfirleitt ekki mig brast kjarkur.

Þótt hvorki orðabækur né Málfarsbankinn nefni að þverra geti tekið þágufallsfrumlag virðist það lengi hafa verið algengt – ég sé reyndar ekki betur en að a.m.k. síðan á nítjándu öld hafi þágufallsfrumlag verið margfalt algengara en þolfallsfrumlag og sé enn, og því fylgi nær alltaf nefnifallsandlag. Í Iðunni 1884 segir: „Þegar hinni dökku sveit þvarr rómur.“ Í Reykjavík 1904 segir: „Svo fór líka, að Valtýskunni óx heldur fylgi, en heimastjórnarflokknum þvarr það að sama skapi.“ Í Verði ljós 1904 segir: „honum þvarr allur máttur.“ Í Ísafold 1908 segir: „þeim þvarr þrek og þrautseigja.“ Í Ísafold 1910 segir: „Með ellinni þvarr honum heilsa og þróttur.“ Næstum öll dæmi um þverra með andlagi í Risamálheildinni virðast hafa þágufallsfrumlag.

Dæmi um þolfallsfrumlag eru vissulega til, en sárafá. Í Kirkjuritinu 1937 segir: „Hann þvarr hvergi stilling né hugprýði.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „mig þvarr úthald til að fylgjast með Tíma nornarinnar síðasta vor.“ Í þessum dæmum sést ekki hvort andlagið er í nefnifalli eða þolfalli (orð eins og stilling voru áður endingarlaus í þolfalli). En ótvíræð dæmi má finna um hvort tveggja. Í Faxa 1973 segir: „Mig þvarr því mátt“ en í Vikunni 1988 segir: „mig þvarr allur máttur“. Tvö dæmi eru sérlega athyglisverð. Í þýddri frásögn í Úrvali 1956 segir: „En gæsin brauzt um og reyndi að losa sig, unz hana þvarr máttur að nýju“ en í sama texta í Æskunni 1960 er setningin: „En gæsin brauzt um og reyndi að losa sig, unz hana þvarr mátt að nýju“.

Þegar þverra er án andlags er frumlagið langoftast í nefnifalli eins og Málfarsbankinn segir, en dæmi um þolfallsfrumlag eins og nefnd eru í Íslenskri orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru þó til. Í Vísi 1960 segir: „kraftana þvarr nú undarlega fljótt.“ Í Tímanum 1981 segir: „jafnvel frægir skákmenn geta átt von á breytingum til hins verra þegar aldurinn færist yfir eða kraftana þverr af einhverjum ástæðum.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Sá sem hana fremur, stingur sig í kviðinn með hnífi eða stuttu sverði og ristir upp á við þar til máttinn þverr.“ Í Skagfirðingabók 1994 segir: „Þar sem heilsu Stefáns hrakaði næstu árin, máttinn þvarr.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „þegar þá þvarr fóru þeir félagar að hlæja af ásetningi.“

Ekki verður skilist við sögnina þverra án þess að nefna að áður fyrr beygðist hún iðulega veikt. Í athugasemd við hana í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Allmörg dæmi um veika beygingu, þt. þverraði, eru í Ritmálssafni og á timarit.is, aðallega frá 19. öld, en þeim fer fækkandi með árunum.“ Slík dæmi má þó finna þegar í Guðbrandsbiblíu frá 1584: „viðsmjörið í krúsinni þverraði ekki.“ Nútíðarmyndir sagnarinnar voru einnig iðulega veikar – í Heima er bezt 1961 segir t.d.: „En sigurgleði fulltrúans þverrar brátt.“ Bæði sterk og veik beyging er gefin í Íslenskri orðabók og ekki gert upp á milli. Veika beygingin virðist hafa verið nokkuð algeng fram yfir miðja tuttugustu öld, en er nú líklega nær horfin – en reyndar er sögnin ekki algeng.

Spurningunni sem ég nefndi í upphafi svaraði ég – áður en ég hafði kannað málið vandlega: „Ég held að öruggara sé að hafa nefnifall þarna en það mætti alveg verja þolfallið líka.“ Málfarsbankinn gerir ráð fyrir nefnifalli eins og áður segir en ýmis dæmi eru um þolfall og varla hægt að líta alveg fram hjá þeim. Hins vegar er ljóst að dæmi Málfarsbankans um notkun þverra með andlagi þar sem bæði frumlag og andlag eru í þolfalli, mig þverr kraft, er ekki í samræmi við hefðbundna málnotkun – allt frá nítjándu öld hefur sögnin í yfirgnæfandi meirihluta tilvika verið höfð með þágufallsfrumlagi og nefnifallsandlagi, mér þverr kraftur. Engar forsendur eru fyrir öðru en telja þetta rétta – og eðlilegustu – notkun sagnarinnar.