Ég hef stundum séð amast við meintri ofnotkun sambandsins eiga samtal þar sem ýmsum finnst einfaldara og eðlilegra að segja tala við eða tala saman, ræða við eða ræða saman, o.fl. Þess hefur verið getið til að þetta sé komið úr ensku, have a conversation, og það hljómar ekki ólíklega. Það myndi þá samræmast því sem oft er haldið fram, að vísu með litlum rökum, að íslenska sé „sagnamál“ en enska „nafnorðamál“. Það er vissulega rétt að tíðni sambandsins hefur aukist verulega á síðustu fimmtán árum eða svo og þar kunna ensk áhrif að skipta máli. En uppruna sambandsins er tæpast hægt að rekja til ensku, því að það hefur tíðkast í íslensku a.m.k. síðan í lok nítjándu aldar og var nokkuð algengt alla tuttugustu öldina.
Í Skírni 1892 segir: „Maður […] talar latínu við hann, nema að ferðamaðurinn sé ekki fær um að eiga samtal á dauðu máli.“ Í Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum 1895 segir: „en er þeir haustið 1891 áttu samtal um þetta.“ Í Þjóðólfi 1899 segir: „Hún kom, svo þau áttu samtal í tjaldinu.“ Í Austra 1899 segir: „Eg heyrði hér um daginn nokkra bændur eiga samtal um friðarboðskap keisarans.“ Í Sameiningunni 1903 segir: „Ef sagt hefði verið fyrir fám árum, að maðr einn hefði átt samtal við annan mann.“ Í Ísafold 1905 segir: „Við og við verður átt samtal við börnin um ýmislegt á göngu um nágrennið.“ Í Reykjavík 1908 segir: „Eg kæri mig ekkert um að eiga samtal undir fjögur augu við þennan ræðumann.“
Það eru ýmis dæmi um það á seinustu árum að notkun tiltekins orðs eða orðasambands sem lengi hefur verið í málinu aukist vegna enskra áhrifa og þetta kann vel að vera eitt af þeim. En annað samband þessu skylt, sem einnig hefur verið amast við en er mun yngra, er taka samtal(ið). Elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2002: „blaðamenn DV höfðu með skrifum sínum nauðbeygt hann til að taka samtalið við Davíð.“ Næsta dæmi á tímarit.is sést ekki fyrr en í Kjarnanum 2013: „flokkurinn hefur aldrei verið hræddur við að taka samtalið um alþjóðasamstarf fyrr en nú.“ Upp úr þessu fer dæmum um sambandið fjölgandi og það hefur breiðst gífurlega út á síðustu 5-10 árum – alls eru hátt í 900 dæmi um það í Risamálheildinni.
Það er ekkert ótrúlegt að farið hafi verið að nota taka samtal(ið) undir einhvers konar sameiginlegum áhrifum frá eiga samtal og have a conversation, en tæpast er hægt að kenna enskum áhrifum um þá sprengingu sem hefur orðið í notkun sambandsins undanfarið. Það hefur af einhverjum ástæðum orðið klisja í þjóðfélagsumræðunni, ekki síst meðal stjórnmálafólks – í Risamálheildinni eru alls rúm hundrað dæmi um það úr ræðum á Alþingi, sem er mjög hátt hlutfall miðað við hlut þessara ræðna af heildinni. Öfugt við flestar önnur málfarsnýmæli er aðeins lítið brot af dæmunum, innan við hundrað, úr samfélagsmiðlum. Þótt sambandið taka samtal(ið) megi teljast fullgild íslenska út af fyrir sig verður varla annað sagt en það sé ofnotað.

+354-861-6417
eirikurr