Posted on Færðu inn athugasemd

Germynd er fyrir gerendur

Einu sinni varð nokkur umræða á Facebook um frásagnir fjölmiðla af ofbeldisverki sem var framið í fyrrakvöld þegar karlmaður hrinti konu fram af svölum. Ýmsir gagnrýndu að í fyrstu fyrirsögnum fjölmiðla hefði verið sagt „Kona féll fram af svölum“ þegar fram kæmi í fréttum að henni hefði verið hrint. Aðrir bentu á að í fréttunum kæmi fram að þótt vitni hefðu sagt að konunni hefði verið hrint hefði það ekki fengist staðfest hjá lögreglu fyrir birtingu fréttarinnar og því hefðu fyrirsagnirnar aðeins sagt það sem vitað var með vissu. Á vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrirsögnin var upphaflega „Kona féll af svölum í Breiðholti“ seint um kvöld, var fyrirsögninni breytt snemma næsta morgun í „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“.

Eftirfarandi athugasemd hafði þá verið bætt við fréttina: „Frétt uppfærð klukkan 06:30. Í fyrri útgáfu kom fram að konan hefði fallið fram af svölum. Inngangi fréttarinnar og fyrirsögn hefur verið breytt til samræmis við upplýsingar frá lögreglu.“ Vísir skrifaði líka frétt um málið snemma morguns með fyrirsögninni „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“ en á mbl.is var fyrirsögnin um morguninn „Alvarlega slösuð eftir fall“ þrátt fyrir að í fréttinni væri fullyrt að konunni hefði verið hrint. Þetta minnti mig á fyrirlestur um ofbeldi gegn konum sem ég sá á netinu fyrir nokkrum árum og skrifaði færslu um á Facebook – Halla Sverrisdóttir þýddi erindið svo og það birtist á Knúz.

Þar var talað um hvernig við getum – meðvitað eða ómeðvitað – haft áhrif á þau hughrif sem kvikna hjá lesendum eða áheyrendum með mismunandi beitingu tungumálsins.  Af orðalaginu Kona féll fram af svölum er eðlilegast að draga þá ályktun að um slys hafi verið að ræða, þótt ég skilji þau rök blaðamanna að meðan ekki hafi fengist staðfesting á ofbeldisverki sé rétt að fara varlega í staðhæfingum. En þegar staðfest hefur verið að um ofbeldisverk var að ræða hafa fjölmiðlarnir fyrirsagnirnar samt í þolmynd, ekki germynd – þær beinast enn að þolandanum, ekki gerandanum. Þær hefðu getað verið Karlmaður hrinti konu fram af svölum eða Karlmaður framdi ofbeldisverk eða eitthvað slíkt.

En þannig voru þær ekki – og þannig eru fyrirsagnir og fréttir sjaldnast. Gerandinn, sá sem er valdur að hinum fréttnæma atburði, er í skugganum – en þolandinn, sem olli ekki atburðinum en var staddur á röngum stað á röngum tíma, fær alla athyglina. Mér dettur ekki í hug að blaðamenn séu vitandi vits að hlífa gerandanum í þessu dæmi eða öðrum svipuðum. En þarna er ákveðin hefð sem við þurfum að vinna gegn – hefð sem er mótuð af rótgrónum viðhorfum og viðheldur þeim. Látum ekki tungumálið ganga í lið með gerendum – notum germynd þar sem við á, ekki þolmynd. Muninum verður ekki betur lýst en með broti úr Ljósi heimsins eftir Halldór Laxness:

„Hvað er að þér, Jósep? spurði hann að lokum.
Gamli maðurinn svaraði upp úr grátinum, og var enn ekki farinn að hafa rænu á að verka af sér forina:
Ég var barinn, sagði hann. Mér var hrint.
Ýngra barn mundi hafa sagt um hina krakkana: Þau börðu mig, þau hrintu mér – og nefnt nöfn. Eftir að hafa verið mishepnað skáld, búið fjörutíu ár á koti og mist sjö börn í jörðina og sjóinn, sagði hann aðeins: ég var barinn; mér var hrint. Hann ásakaði ekki neinn. Það afl sem stjórnaði lífi hans var ópersónulegt.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.