Ég fæ iðulega spurningar um ýmis málfarsleg atriði, bæði í „Málspjalli“ og í einkaskilaboðum eða tölvupósti. Þessar spurningar eru mjög fjölbreyttar og miserfitt að svara þeim. Nýlega fékk ég spurningu sem var í sjálfu sér mjög einfalt að svara en olli mér samt nokkrum áhyggjum. Ég var spurður hvort mætti ekki halda því fram að tiltekið orð hefði tiltekna merkingu. Þetta er orð sem vissulega er ekki algengt í nútímamáli en ég hefði þó haldið að fólk ætti að þekkja það. Fyrirspyrjandi sagðist hafa verið að leita að merkingu orðsins og þá hefði komið upp bæði að orðið hefði merkingu A – sem fyrirspyrjandi taldi að orðið merkti – og merkingu B. Þessar merkingar eru vissulega skyldar en þó bæði mikilvægt og auðvelt að halda þeim aðgreindum.
Ég sagði að allar orðabækur sem ég hefði skoðað, bæði fyrir fornmál og nútímamál, væru á einu máli um að merking orðsins væri B – og sama gilti um Vísindavefinn. Hvergi væri minnst á að merkingin hefði verið eða gæti verið A. Ef fyrirspyrjandi hefði einhvers staðar séð orðið notað í þeirri merkingu væri því um misskilning að ræða. Ég fékk miklar þakkir fyrir að leiðrétta misskilninginn – en jafnframt útskýringu á málinu. Hún var sem sé sú að fyrirspyrjandi hafði spurt Chat GPT hvort orðið gæti haft merkingu A og fengið svarið: „Já – það er alveg hægt að færa rök fyrir því að [orðið sem spurt var um] geti vísað til [A], þó merkingin hafi verið breytileg í gegnum aldirnar.“ En fyrirspyrjandi bætti þó við: „En þorðum ekki að taka fullt mark á því.“
Ég varð eiginlega dálítið sleginn yfir þessu. Aðgengi að íslenskum orðabókum hefur aldrei verið jafngott – Íslensk nútímamálsorðabók, Íslensk orðsifjabók og ýmsar aðrar orðabækur eru opnar og ókeypis í gegnum Málið á vef Árnastofnunar, samheitaorðabók er opin og ókeypis á vef Miðeindar, Íslensk orðabók, Íslensk samheitaorðabók og fleiri orðabækur eru aðgengilegar gegn gjaldi á Snöru, og fleira mætti telja. Þetta eru gögn sem eru unnin af fagfólki og þeim má treysta. Samt sem áður dettur fólki fyrst í hug að spyrja Chat GPT sem vitað er að býr ekki yfir nægilegum gögnum til að svara spurningum um íslenskt mál á áreiðanlegan hátt. Ég er nokkuð viss um að þetta er ekki einsdæmi heldur sé algengt og muni aukast. Það er uggvænleg þróun.

+354-861-6417
eirikurr