Orðalag auglýsingar Almannaróms í tilefni af degi íslenskrar tungu virðist hafa farið fyrir brjóstið á sumum og ekki þykja góð íslenska (og ég tek fram að þótt ég hafi áður fyrr starfað með Almannarómi kom ég ekki nálægt þessum texta). Ég hef séð því haldið fram að orðalagið sé „gervigreindarlegt“, „amerískt“ og „auglýsingavaðall“ en einkum er það fyrirsögnin, „Þín íslenska er málið“, sem hnýtt er í. Það sem fólk hefur við hana að athuga virðist vera tvennt: Að þetta sé „ekki íslensk setningaskipan“ vegna þess að í íslensku sé eðlilegt að eignarfornafn fari á eftir nafnorðinu sem það stendur með, en einkum finnst ýmsum þó að eignarfornafnið sé algerlega óþarft þarna – nægilegt sé og eðlilegt að segja einfaldlega Íslenska er málið.
En þótt því sé vissulega oft haldið fram að það sé óíslenskulegt að hafa eignarfornafn á undan nafnorði er það einfaldlega rangt – það er aragrúi dæma um þá orðaröð í vönduðum textum frá öllum öldum og þarf ekki að leita lengi í fornsögum til að finna ótal dæmi. „Tröll hafi þína vini“ sagði Hallgerður langbrók við Gunnar. „Nú vil eg hafa þitt liðsinni um þessa fjárheimtu“ sagði Egill Skallagrímsson við Arinbjörn hersi. Það hefur sem sé alla tíð verið eðlilegt að hafa eignarfornafnið á undan ef eigandinn skiptir ekki síður máli en eignin. Vissulega má finna ýmis dæmi þar sem færa má rök fyrir því að dönsk eða ensk áhrif valdi því að eignarfornafn sé sett á undan nafnorði, en því fer órafjarri að þessa orðaröð megi alltaf rekja til erlendra áhrifa.
Hitt er vitanlega rétt að vel væri hægt að sleppa eignarfornafninu þarna og segja Íslenska er málið – en það hefði bara ekki alveg sömu merkingu. Eignarfornafnið er nefnilega ekki sett þarna að ástæðulausu heldur hefur það mikilvæga hlutverk að minna á að íslenska er alls konar – mín íslenska, þín íslenska, okkar íslenska – og allar þessar íslenskur eru jafnréttháar. Með því að hafa eignarfornafnið á undan nafnorðinu er lögð áhersla á eigandann, að við eigum öll okkar hlut í íslenskunni, og þín íslenska er málið ekkert síður en mín og okkar hinna. Vitaskuld er orðalag smekksatriði og ekkert að því að fólk hafi ólíkar skoðanir á þessari setningu, en meginatriðið er að það er nákvæmlega ekkert óíslenskulegt við hana.

+354-861-6417
eirikurr