Posted on

Dagur íslenskrar tungu

Orðræðan um íslenskuna undanfarin ár hefur oft verið nokkuð niðurdrepandi og full svartsýni. Talað er um að íslenskan eigi undir högg að sækja, sé í vörn, og það þurfi að heyja varnarbaráttu fyrir hana. Ég hef tekið fullan þátt í þessari orðræðu og jafnvel oft verið frummælandi í henni, og ég er sannfærður um að þetta er allt saman rétt, út af fyrir sig. En þótt þessi orðræða sé rétt og vel meint, og tilgangur hennar sé að vara almenning og stjórnvöld við og hvetja til aðgerða, er alltaf hætta á að hún verki öfugt – dragi kjark úr fólki, veiki trú unga fólksins á íslenskuna og framtíð hennar, og valdi því jafnvel að fólk snúi baki við íslenskunni og hugsi sem svo að þetta sé vonlaust og eins gott að skipta bara yfir í ensku. Það má auðvitað ekki gerast.

Íslenskan þarf nefnilega að vera í sókn en ekki í vörn og sóknin á að felast í því að efla hana á allan hátt en ekki í því að berjast gegn ensku og öðrum tungumálum sem eru töluð á Íslandi og eru komin til að vera. Enskan er engin ógn nema ónæmiskerfi íslenskunnar sé veikt. Það eru ekki erlend áhrif, hvorki frá innflytjendum né interneti, sem hafa veikt það – það erum við sjálf. Við þurfum að sækja fram með því að nota íslenskuna á öllum sviðum, efla íslenska bókaútgáfu, fjölmiðla, kvikmyndagerð og hvers kyns skapandi greinar, skapa innflytjendum skilyrði og hvatningu til íslenskunáms og stórauka fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls, og tryggja að íslenska dragist ekki aftur úr á sviði máltækni og gervigreindar.

Jafnframt þurfum við að vera raunsæ og átta okkur á því að heimurinn er breyttur og við lifum ekki lengur í þjóðfélagi þar sem eitt og sama tungumálið getur þjónað öllum þörfum allra íbúa. Hér búa og starfa tugir þúsunda sem ekki eiga íslensku að móðurmáli og þótt það sé æskilegt og mikilvægt – fyrir þau sjálf, fyrir samfélagið, og fyrir íslenskuna – að þau læri íslensku þá tekur það tíma, og hér munu áfram verða stórir hópar fólks sem ekki hefur fullt vald á íslensku. Þar að auki mun fólkið vitanlega halda eitthvað áfram að nota móðurmálið í sinn hóp og ekkert að því – okkur þykir hrósvert að Íslendingar í Vesturheimi hafi haldið lengi í íslenskuna og ættum þess vegna ekki að amast við því þótt sama gildi um innflytjendur á Íslandi.

En því fer vitanlega fjarri að aukin notkun erlendra mála í samfélaginu stafi eingöngu af flutningi fólks til landsins. Þrýsting frá enskunni má ekki síður rekja til aukinnar net- og fjölmiðlanotkunar sem  hefur leitt til þess að umtalsverður hluti þjóðarinnar eyðir verulegum hluta dagsins í enskum málheimi – og það eru engar líkur á að það breytist á næstunni. Þar að auki er auðvitað ljóst að sama hvað við gerum verður framboð á hvers kyns afþreyingar- og fræðsluefni, leikjum o.s.frv. alltaf margfalt meira á ensku (og öðrum erlendum málum) en íslensku. Við getum ekki keppt við það í magni en við þurfum að keppa við það í gæðum – við þurfum að sýna að það er hægt að gera gott efni á íslensku þannig að fólk eigi val.

Íslenskan er ekkert á banabeði – hún er sprelllifandi og getur átt langa og bjarta framtíð fyrir sér. En þá verðum við að hafa trú á henni og vera sátt við að hún breytist og staða hennar breytist. Hún verður aldrei aftur eina málið sem notað er í samfélaginu, heldur þarf að laga sig að nýjum veruleika – og málnotendur þurfa að gera það líka. Samfélagið er orðið fjöltyngt og verður það áfram – og það er í góðu lagi. Fjöltyngi er mjög algengt í heiminum og útbreitt og ótal dæmi sýna að tungumál geta lifað góðu lífi í sambýli hvert við annað. Helsta ógnin við íslenskuna nú er að hún verði gerð að vopni gegn tilteknum hópum og notuð til að kljúfa samfélagið. Sameinumst um að hafna tilburðum til þess – gleðilegan dag íslenskrar tungu!