Posted on

Fleygaðar samanburðartengingar

Í Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar, sem fyrst kom út 1937 og flestir Íslendingar lærðu frá því á fimmta áratug síðustu aldar og fram undir aldamót, jafnvel fram á þessa öld, er að finna langa upptalningu á samtengingum sem notaðar eru í málinu. Á undan upptalningunni er tekið fram að þetta séu „allar helztu samtengingar“ en vegna þeirrar stöðu sem málfræði Björns hafði í skólakerfinu og huga nemenda virðist algengt að fólk telji að þarna sé um að ræða endanlegan lista og samtengingar sem ekki eru taldar þarna séu „ekki til“ eða ekki „rétt mál“. Því fer þó fjarri. Einhverjar samtengingar sem voru notaðar í málinu þegar bókin kom út eru ekki hafðar með, og einnig hafa orðið til nýjar samtengingar, svo sem afleiðingartengingin þannig að.

Meðal samanburðartenginga sem Björn telur upp eru nokkrar fleiryrtar, þar af tvær fleygaðar, þ.e. einhver orð koma á milli hluta tengingarinnar. Þetta eru því – því, eins og „því betri sem undirbúningurinn er, því fljótari erum við að vinna“ í Fréttablaðinu 2020, og því – þeim mun, eins og „því sterkari sem við erum, þeim mun auðveldara er að ná árangri“ á mbl.is 2022. Í fimmtu útgáfu bókarinnar sem Eiríkur Hreinn Finnbogason endurskoðaði og fyrst var prentuð 1958 er sem bætt við innan sviga milli hluta tenginganna, þ.e. því – (sem) – því og því – (sem) – þeim mun, enda fylgir það langoftast með. Þetta eru einu samanburðartengingarnar af þessu tagi sem Björn nefnir, en fljótlegt er að ganga úr skugga um að mun fleiri eru til.

Þar má nefna því – þess: „því fleiri sem þeir eru þess minna er vandað til valsins“ í DV 2014; þess – þess: „þess lægri sem hún er þess hærra er virði bréfsins“ í Morgunblaðinu 1999; þess – þeim mun: „þess fleiri sem þeir verða, þeim mun meiri líkur eru á, að frerinn fari úr jörðinni“ í ræðu á Alþingi 1972; þeim mun – því: „þeim mun meira sem ég reyndi, því verra varð þetta“ í DV 2019; þeim mun – þess: „þeim mun erfiðara sem alþýðu var gjört að hefja algjörlega uppreisn, þess meira æstist hún“ í Skírni 1852; þeim mun – þeim mun: „þeim mun meira sem er af þessu, þeim mun meiri hætta“ í DV 2022; og þess – því: „Þess meira lögmæti sem Pútín fær fyrir ofríki sitt, því meira svigrúm hefur Donald Trump sjálfur“ í Heimildinni 2025.

Í „Málvöndunarþættinum“ var einmitt spurt hvort fólk væri „sátt við þetta orðalag“ í síðastnefnda dæminu en þótt það sé ekki algengt má finna ýmis gömul dæmi um það. Samböndin tvö sem Björn Guðfinnsson nefnir, því – því og því – þeim mun, eru vissulega algengust, en þeim mun – þeim mun er einnig mjög algengt og töluvert af dæmum um þeim mun – því og því – þess. Samböndin þess – því, þess – þess og þeim mun – þess eru sjaldgæfari og þess – þeim mun virðist vera mjög sjaldgæft. Það er samt ljóst að öll þessi sambönd hafa tíðkast í málinu og engar forsendur fyrir því að hafna einhverjum þeirra – þótt Björn nefni aðeins algengustu samböndin er ekkert sem bendir til þess að hann hafi talið hin vera röng.