Nýlega skrifaði áhrifamikill stjórnmálamaður: „Á meðal málfræðinga og í íslenskri menntastétt hefur sú hugmynd náð sífellt meiri fótfestu á síðari árum, að í raun sé ekkert til sem heitir rétt eða rangt mál.“ Þetta hefur síðan verið étið upp af ýmsum, t.d. í grein í DV í dag. En þetta er rangt – ég veit ekki til þess að nokkur íslenskur málfræðingur hafi hafnað því að til sé eitthvað sem heiti „rangt mál“. Viðurkennd skilgreining á réttu máli og röngu er sú sem finna má í svari Ara Páls Kristinssonar á Vísindavefnum: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Ég tek undir þessa skilgreiningu og veit ekki betur en þorri íslenskra málfræðinga aðhyllist hana.
Því hefur líka verið haldið fram að ýmsir málfræðingar fordæmi allar leiðréttingar á máli barna en dylgjað um „að þessir sömu frjálslyndu menntamenn, sem út á við vildu láta allt reka hér á reiðanum í málfarsefnum, gerðust þó sekir um það heima fyrir að leiðrétta eigin börn þegar þágufallssýki fór að ríða húsum“. Eins og ég hef margsinnis skrifað um kannast ég ekki heldur við að málfræðingar amist við því að foreldrar leiðrétti málfar barna sinna á máltökuskeiði. Það er vitanlega sjálfsagður hluti af uppeldinu að leiðbeina um málfar eins og annað í hegðun og framkomu. Hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar skili ekki miklu og árangursríkara sé að vera börnunum góð málfarsfyrirmynd, tala við þau og lesa fyrir þau.
Það sem mér finnst þó verst og ljótast í áðurnefndum skrifum er að sjúkdómsvæðing málfars sem ég vonaðist til að væri liðin tíð er þar endurvakin með því að nota orðið þágufallssýki án gæsalappa eins og það sé hvert annað hlutlaust fræðiheiti. Meira að segja er bætt í með því að gera gys að þeirri „viðkvæmni“ sem ríki „uppi í háskóla“ og sagt: „Sama heilkenni er að vísu kallað þágufallshneigð uppi í háskóla í dag.“ Orðið heilkenni er læknisfræðilegt íðorð sem er skýrt 'Heild einkenna og teikna sem vitað er eða álitið er að auðkenni kvilla, sjúkleika eða meinsemd' í Íðorðasafni í læknisfræði. Með því að nota það er því komið skýrt á framfæri að umrætt tilbrigði í máli – sem er eðlilegt mál verulegs hluta þjóðarinnar – sé sjúklegt.
Þarna eru endurvaktir áratuga gamlir fordómar. Í Samtíðinni 1943 sagði Björn Sigfússon: „Þágufallssýki er gömul á Íslandi […] En landfarsótt hefir hún aldrei verið nema á okkar dögum“ og í Austurlandi 1952 sagði hann: „Þágufallssýki er alvarlegur kvilli og smitar ört.“ Gísli Jónsson sagði eitt sinn að „þágufallsýki“ minnti „reyndar leiðinlega á limafallssýki og niðurfallssýki“ og Bubbi Morthens sagði í Fréttablaðinu 2019: „Orðið þágufallssýki er þrútið af hroka enda hafa menn gegnum tíðina notað tungumálið nánast sem valdatæki þeirra sem töluðu rétt mál og skrifuðu rétt og beitt því gegn þeim sem notuðu það ekki rétt eða gátu ekki skrifað rétt. Þeir voru settir á lúserabásinn og urðu niðursetningar íslenskrar tungu.“
Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið full svipaðrar fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“ eða „þágufallssjúkir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík. Það er dapurlegt og ekki íslenskunni til framdráttar að slík orðræða skuli vera endurvakin.

+354-861-6417
eirikurr