Posted on

Að láta lífið

Í grein um Michael Jackson í DV í gær rakst ég á setninguna „Eftir að hann lét lífið árið 2009 hafa þessar ásakanir aftur farið á mikið flug“. Ég staldraði við orðalagið lét lífið vegna þess að ég veit ekki betur en Jackson hafi dáið úr hjartaáfalli vegna ofneyslu lyfja, og það samræmist ekki þeirri merkingu sem ég legg í sambandið láta lífið sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'deyja (af slysi eða af völdum árásar)'. Það er svigagreinin sem þarna skiptir höfuðmáli – sambandið láta lífið er – eða var – ekki samheiti við sögnina deyja heldur vísaði til dauða af tilteknum orsökum. Vissulega má halda því fram að ofneyslan sem olli dauða Michael Jacksons hafi verið slys í einhverjum skilningi en merkingarvíkkun sambandsins er samt ekki einsdæmi.

Reyndar má finna gömul dæmi þar sem sambandi láta lífið er notað um dauðdaga sem ekki orsakast af slysum eða árásum í venjulegum skilningi. Í Heimskringlu 1893 segir t.d.: „Ef eigi er bót á ráðin þegar í stað, hljóta margir að láta lífið af hungri.“ Í Lögbergi 1894 segir: „Canada missir góða borgara sína svo hundruðum skiptir þannig, að þeir láta lífið af því að drekka óhreint vatn.“ En vissulega má flokka hungursneyð og eitrun undir einhvers konar slysfarir. Það er reyndar athyglisvert að frá því fyrir 1890 og alveg fram á fjórða áratug tuttugustu aldar er þetta samband margfalt meira notað í vesturíslensku blöðunum en í blöðum gefnum út á Íslandi, af hverju sem það kann að stafa. En þar er langoftast um að ræða dauðsföll í slysum eða ófriði.

Einstöku dæmi af svipuðu tagi koma fyrir alla tuttugustu öldina, en um og eftir síðustu aldamót virðist dæmum þar sem láta lífið er notað án þess að um slys eða ófrið sé að ræða fara smátt og smátt fjölgandi. Í Í Víkurfréttum 2000 segir: „Margir einstaklingar hafa þegar látið lífið vegna E-töflunnar.“ Í DV 2001 segir: „Um 80 manns í Evrópu hafa látið lífið af nýju afbrigði Creutzfeldt-Jakobs-veikinnar.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „lesbíur séu 60 prósentum líklegri en gagnkynhneigðar konur til að láta lífið úr krabbameini.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Þá var talið að um 700.000 manns létu lífið á ári vegna sýklalyfjaónæmis.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Milljónir voru án rafmagns og vatns og tugir létu lífið í kuldakastinu.“

Sambandið láta lífið var líka iðulega notað um dauðsföll af völdum kórónuveirunnar. Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Veiran á upptök sín að rekja til Wuhan í Kína en töluverður fjöldi hefur látið lífið vegna hennar.“ Í Fréttablaðinu sama ár segir: „Á fjórða hundrað hafa nú látið lífið af völdum kórónaveirunnar.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Alls voru 3.711 manns um borð en þar af smituðust 712 og 14 létu lífið.“ Einnig virðist sambandið oft vera notað þegar fólk fyrirfer sér. Í Monitor 2011 segir: „Það var sorglegt þegar hönnuðurinn Alexander McQueen lét lífið í febrúar.“ Í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2024 segir: „Víða um heim eru starfrækt samtök til forvarnar og stuðnings við eftirlifendur þeirra sem láta lífið í sjálfsvígi.“

Ljóst er að notkun sambandsins láta lífið um dauðsföll af völdum sjúkdóma, einkum farsótta, lyfjaneyslu og sjálfsvíga hefur aukist verulega á síðustu árum. Merking þess hefur því greinilega víkkað – ekkert af þessu fellur undir áðurnefnda orðabókarskilgreiningu, 'af slysi eða af völdum árásar'. En það táknar ekki að sambandið sé orðið algert samheiti við deyja. Mér sýnist að það sé sameiginlegt langflestum dæmum um sambandið að um er að ræða ótímabæran dauða. Einstöku dæmi má vissulega finna sem ekki falla undir það, s.s. „Afi lét lífið 92 ára að aldri“ í Morgunblaðinu 2011, en það er undantekning. Skilgreiningin gæti því verið 'deyja ótímabærum dauða (af völdum slyss, árásar, ófriðar, loftslags, farsóttar, lyfjaneyslu, sjálfsvígs o.fl.)'.