Við vitum öll að áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu – stjórnvöld, fjölmiðlar, stórfyrirtæki og valdamiklir einstaklingar – leitast sífellt við að hafa áhrif á skoðanir okkar og gerðir og beita til þess tungumálinu. Það er auðvitað hluti af lýðræðislegri umræðu og ekkert við það að athuga sé það gert á heiðarlegan hátt. En öðru máli gegnir þegar tungumálinu er misbeitt og reynt að telja okkur trú um að íslensk orð sem við öll þekkjum, og vitum hvað merkja, merki í raun eitthvað allt annað. Þetta er því miður alltof algengt en eitt grófasta dæmi um þetta sem ég hef séð nýlega er að finna í yfirlýsingunni „Um uppbyggingu við Skaftafell – skýringar og samhengi“ sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar birti á vef sveitarfélagsins.
Yfirlýsingin er birt vegna gagnrýni sem hefur komið fram á byggingu gistihúsa í grennd við Skaftafell, ekki síst að húsin sem áttu að vera á einni hæð eiga nú að vera tveggja hæða. Bæjarstjórinn fullyrðir í Vísi að gagnrýnin eigi ekki rétt á sér: „Það sem skiptir máli er að uppbyggingin samræmist samþykktu skipulagi og settum skilmálum“ segir hann. Það kann vel að vera og ég geri ekki athugasemdir við það, heldur við orð bæjarstjórans í áðurnefndri yfirlýsingu – „húsin eru ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi“. Í yfirlýsingunni kemur þó fram að milligólf séu í húsunum: „Hvort í húsum séu milligólf eða ekki hefur lítil sem engin áhrif á það hvernig byggðin birtist í landslaginu“ – sem má í sjálfu sér vel vera rétt.
En frá sjónarmiði íslenskunnar snýst málið ekki um það, heldur um þá fullyrðingu bæjarstjórans um eðli húsanna að þau séu „ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi“. Á myndum má glöggt sjá að gluggarnir á þremur hliðum húsanna eru á tveimur hæðum, auk þess sem húsin eru með svölum. Hús með milligólfi, gluggum á þremur hliðum yfir öðrum gluggum og svölum að auki eru vitanlega tveggja hæða í öllum skilningi og það er augljós og vísvitandi rangfærsla að reyna að halda öðru fram. Ekki bara það – það er dónaskapur og móðgun við málnotendur að reyna að telja þeim trú um að íslensk orð merki eitthvað annað en þau merkja í málvitund almennings. Slíka misnotkun íslenskunnar verður að fordæma harðlega.

+354-861-6417
eirikurr