Posted on

Brennimerkt orðalag

Stundum gerist það að eðlilegt og hefðbundið íslenskt orðalag sem er í fullu samræmi við málhefð fær að ósekju á sig þann stimpil að vera „rangt mál“ – oftast vegna misskilnings eða vanþekkingar. En þegar orð eða orðalag hefur fengið á sig þennan stimpil er hægara sagt en gert að þvo hann af, og dugir ekki þótt sýnt sé með skýrum rökum að hann eigi ekki rétt á sér – eftir sem áður er hamrað á því að þetta sé rangt. Því er eiginlega nær að tala um brennimark en stimpil. Eitt skýrasta dæmið um þetta er sambandið forða slysi sem barist hefur verið gegn undanfarin sjötíu ár a.m.k., þrátt fyrir að Helgi Hálfdanarson hafi sýnt fram á það með skýrum rökum fyrir meira en fimmtíu árum að þetta samband er fullkomlega eðlilegt og rétt mál.

Þetta orðalag hefur tíðkast a.m.k. síðan á nítjándu öld – elsta dæmi sem ég finn um það er í Stefni 1899: „með því mætti forða slysum.“ Eldri dæmi má finna með öðrum andlögum en slys. Í Tímanum 1872 segir: „forðað þeirri eyðilegging, sem ann­ars hefði ber­lega legið fyrir höndum“. Í Ísafold 1876 er talað um „að leita láns úr landssjóði til að forða hallæri hjer í sjávarsveit­unum“. Í Norðanfara 1877 segir: „farið er að skjóta saman stórfje til að forða meiri mannfelli“. Í Fróða 1882 seg­ir: „sendu þangað matvæli á 10 hestum til að forða hung­urs­neyð í bráð“. Í Þjóðólfi 1883 segir: „svo mál­leysu sé forðað“. Í Ísafold 1888 segir: „þar varð forðað miklu óhappi“. Í Ísafold 1891 segir: „Hjer hafa hollar hend­ur að hlúð og forðað grandi“.

Fram yfir miðja tuttugustu öld var margoft talað um að forða slysi án þess að nokkrum þætti það athugavert að því er séð verði. En í „Móðurmálsþætti“ Vísis 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Sögnin að forða er oft ranglega notuð í merkingunni að koma í veg fyrir, afstýra. Oft er sagt og ritað: Hann forðaði slysi, lögregan forðaði vandræðum. […] Öll þessi dæmi eru röng. Forða merkir að bjarga. Forða slysi merkir því að bjarga slysi, vandræðum að bjarga vandræðum. En hvorki slysum né vandræðum. er forðað (bjargað), heldur er þeim afstýrt, komið í veg fyrir þau.“ Á næstu áratugum og fram undir þetta má finna fjölda dæma í blöðum og tímaritum um að amast hafi verið við orðalaginu, sem er talið óæskilegt í Málfarsbankanum.

En svolítið öðruvísi dæmi eru líka til. Í Þjóðólfi 1856 segir: „til að forða þeim kúgun þeirri, sem hér er kvartað yfir“. Í Þjóðólfi 1873 segir: „að forða Reykvíkingum öllu grandi, öllum vansa“. Í Kristilegu smáriti handa Íslendingum 1865 segir: „Vak þú yfir mér í dag, og forða mér öllu illu“. Í Baldri 1868 segir: „geta þó fengið björg til að forða sjer hungri“. Í Þjóðólfi 1869 segir: „til að forða þeim eyðingu“. Í Þjóðólfi 1873 segir: „biðja stjórnina að forða sér hungrsdauða“. Eldri dæmi eru líka til: „skipar oss því að flýja fyrir henni og forða oss hennar nánd“ segir í Fimmtíu heilögum hugvekjum frá 1630. „Forða hríðum / forða mér við hríðum“ segir í „Áradalsóði“ eftir Jón Guðmundsson lærða frá svipuðum tíma – og fleiri dæmi mætti nefna.

Í þessum dæmum tekur forða sem sé með sér tvö þágufallsandlög, forða einhverjum einhverju, eins og t.d. lofa og úthlutahún lofaði mér öllu fögru, hann úthlutaði þeim verkefnum. Það er alkunna að þessar sagnir geta sleppt fyrra andlaginu en haldið því seinna eftir – hún lofaði öllu fögru, hann úthlutaði verkefnum. Uppruna dæma eins og forða mannfelli / hungursneyð /óhappi / grandi / slysi o.s.frv. má greina á sama hátt – þ.e. á bak við þau liggur forða (þjóðinni) mannfelli / hungursneyð, forða (sér) óhappi / grandi / slysi o.s.frv. Í dæmum eins og forða slysi, forða tjóni, forða óhappi er þágufallsandlagið upprunnið sem seinna andlag sagnarinnar, en andlagið í forða sér, forða lífi sínu, forða barninu o.s.frv. sem það fyrra.

Þótt lofa og úthluta taki tvö þágufallsandlög eru merkingarleg vensl þeirra við sögnina því ólík. Annað þeirra vísar til persónu, þiggjanda loforðs eða úthlutunar, hitt vísar til þess hlutar eða verknaðar sem er lofað eða úthlutað. Svipað er með forða eins og Helgi Hálfdanarson benti á í Morgunblaðinu 1974: „Glöggt dæmi um þetta er orðalagið að forða slysi og ofsóknin á hendur því. Áratugum saman hefur þessi ágæti talsháttur verið hundeltur með þeim freka útúrsnúningi, að hann hljóti að merkja forða slysinu frá einhverju. Engum getur þó dulizt, að merkingin er sú, að einhverju, sem ekki er nefnt, er forðað frá slysi. […] [M]unu vandfundin boðleg rök gegn þessari notkun sagnarinnar að forða, enda var hún algeng til skamms tíma.“

En samt var haldið áfram að amast við forða slysi. Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2004 segir Jón G. Friðjónsson: „Í nútímamáli ber oft við að sögnin sé látin merkja ‘koma í veg fyrir e-ð, afstýra e-u, hindra e-ð’. […] Slík notkun mun einungis vera kunn úr nútímamáli og getur ekki talist til fyrirmyndar.“ Í sama þætti í Morgunblaðinu 2006 segir Jón: „Í pistlum þessum hefur áður verið á það bent að sögnin forða er alloft notuð með sérkennilegum hætti. […] [G]uð forði okkur frá því að þetta nýmæli nái að festa rætur.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir Njörður P. Njarðvík: „Ég hélt að allir væru hættir þeirri vitleysu að „forða slysum“ […]. Hvert á að forða slysum? Frá hverju á að forða slysum? Sjá ekki allir hvað þetta er vitlaust?“

Nýjustu dæmin af þessu tagi sem ég hef séð eru í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu bæði 2018 og 2019. Líklega hefur þessi barátta haft einhver áhrif – a.m.k. hefur dæmum um forða slysi á tímarit.is farið fækkandi á síðustu áratugum. Útskýring Helga Hálfdanarsonar á því að ekkert sé athugavert við að tala um að forða slysi virðist því ekki hafa haft nein áhrif – sem er sérlega áhugavert. Helgi var nefnilega iðinn við að benda á ýmis tilbrigði í máli sem hann taldi röng, og yfirleitt var tekið mark á honum um það – margt af því sem hann upphófst með (og er sumt býsna vafasamt) hefur t.d. ratað inn í Málfarsbankann. En þarna var hann að reyna að endurreisa sambandið forða slysi – en það gekk ekki. Sambandið var brennimerkt – og er það enn.